Nú í desember hefur vinna við nýbyggingu Vatnaskógar haldið áfram. Smiðir hafa verið að vinna við lokafrágang á utanhúsklæðningu. Nú er komið jólafrí, en þeir munu halda áfram strax eftir áramót.
Árið 2009 hefur verið viðburðarríkt í Vatnaskógi. Góð aðsókn var á viðburði ársins hvort sem það voru leikskólabörn um vorið, drengir og unglingar í flokka sumarsins, gestir á Sæludögum um verslunarmannahelgina, fermingarbörn um haust og vetur eða gestir á ýmsa helgarviðburði sem voru meira og minna yfir allt árið.
Birkiskáli II
Mikill framkvæmdahugur er í Skógarmönnum og ráðist var í stór verkefni. Hið nýja hús sem hefur fengið vinnuheitið Birkiskáli II reis á árinu, framkvæmdir hófust í mars og stóðu fram í júlí. Síðan var gert hlé. Hafist var síðan á fullum krafti aftur í nóvember og er gert ráð fyrir að húsið verði fullfrágengið að utan og tilbúið til innréttingar að innan snemma á næsta ári. Framhald verksins mun ráðast af fjármögnun og eru forsvarsmenn Vatnaskógar að vinna í þeim málum. Eins og staðan er í dag þá er útlitið með fjármögnun ekki gott en með Guðs hjálp og góðra manna þá mun hún takast.
Margir velunnarar Vatnaskógar hafa stutt vel við verkefnið og styrkja með reglulegum gjöfum, meðal annars bárust Skógarmönnum tvær stórgjafir frá tveimur einstaklingum að upphæð kr. ein milljón kr. hvor. Allur stuðningur er mikilvæg hvatning og vinarbragð til Vatnaskógar sem hvetur menn til góðra verka. Þeir sem vilja styðja við verkefnið geta lagt inn á reikning 117-26-12050 kt. 5621182-0169.
Kapellan
Annað stórverkefni var endurnýjun á þaki Kapellu Vatnaskógar. Í sumar var eldra þakið fjarlægt og ný glæsileg koparklæðing sett á. Einnig var umhverfi kapellunnar endurnýjað. Á næsta ári verður þakið einangrað og frágangur að innan sem utan. Nokkrir Skógarmenn tóku verkefnið að sér og hófu söfnun meðal gamalla Skógarmanna til þess að fjármagna verkefnið. Gengur söfnunin vel og ljóst að fjölmargir leggja málefninu lið, með góðum gjöfum. Enn er hægt að leggja verkefninu lið því betur má ef duga skal: 0101-05-192975 kt. 521182-0169.
Nú í janúar mun flokkur rafvirkja gera breytingar á rafmagnsmálum staðarins þannig að staðurinn mun verða með svokallað þriggja fasa rafmagn sem þýðir öruggari rafmagn og betri nýtingu orkunnar.
Skógarmenn líta björtum augum á framtíðna og mörg spennandi verkefni á komandi ári. Ég vil fyrir hönd okkar í Vatnaskógi þakka öllum fyrir samstarf og stuðning á árinu sem er líða og óska ykkur Guðs blessunar á komandi ári.
Ársæll Aðalbergsson framkvæmastjóri
arsaell@kfum.is