Í kvöld, 7. október, er fyrsti AD KFUM – fundur vetrarins á Holtavegi 28 í Reykjavík kl.20.
Fundur kvöldsins verður með yfirskriftinni ,,Gott sumar að baki „. Sagðar verða fréttir og frásögur af þremur skemmtilegum viðburðum á vegum KFUM og KFUK frá nýliðnu sumri, og koma góðir gestir þar að.
Hreiðar Örn Stefánsson segir frá ferð unglingadeilda KFUM og KFUK á Ung Uge í Danmörku. Þór Bínó Friðriksson, æskulýðsfulltrúi KFUM og KFUK og mótsstjóri Sæludaga í Vatnaskógi 2010 segir frá Sæludögum sem voru afar vel sóttir í sumar. Þá segir Arnar Ragnarsson frá alþjóðlegu leiðtogamóti sem hópur leiðtoga frá Íslandi sótti í Þýskalandi. Stjórnun fundar er í höndum Tómasar Torfasonar.
Eftir að dagskrá lýkur eru fundargestir hvattir til að staldra við og eiga góða stund saman yfir kaffi og veitingum, sem verða til sölu á vægu verði. Umsjón með veitingum hefur Oddrún Jónasdóttir Uri, og henni eru færðar bestu þakkir fyrir það.
AD stendur fyrir ,,Aðaldeild“, og er hluti af fullorðinsstarfi KFUM og KFUK. AD KFUM-fundir eru fundir fyrir karla.
Fundir AD KFUM verða hvern fimmtudag á Holtavegi 28 kl.20 í vetur. Allir karlar eru hjartanlega velkomnir á fundina.