Hér koma fréttir dagsins frá Vatnaskógi!

Í gær, sunnudag var fyrsti heili dagurinn hjá drengjunum í 7. Flokki í Vatnaskógi þetta árið. Dagurinn hófst með fánahyllingu og morgunstund þar sem fjallað var um Biblíuna. Í hádeginu var boðið uppá ítalskt lasagne. Eftir hádegi var boðið uppá skemmtilega gönguferð út í Oddakot og þegar til baka var komið, var úrslitaleikurinn á HM í Rússlandi sýndur, milli Frakklands og Króatíu í HM stofunni. Í kaffinu var boðið uppá nýbakaða pizzasnúða og hlunkakökur.

Veðrið í gær var heldur óspennandi en rigning setti svip sinn á daginn eins og marga aðra daga hér í skóginum þetta sumarið en drengirnir létu það ekki stoppa sig og fóru út á báta og léku sér margir úti í fótbolta og fleiru. Smíðaverkstæðið er gríðarlega vinsælt en þar geta strákarnir komið og smíðað allt milli himins og jarðar. Íþróttahúsið er alltaf vinsælt en þar er hægt að skella sér í borðtennis, pool og margt fleira. Í kvöldmat var boðið uppá pasta og hvítlauksbrauð. Kvöldvakan var fjörug og skemmtileg en þar fengu strákarnir að sjá leikrit í boði Villiandarinnar en það er leikfélag sem hefur verið starfandi í áratugi. Það var mikið sungið og hlegið, hugleiðingin var á sýnum stað og svo var boðið uppá kapellustund fyrir þá sem vildu. Eftir kvöldkaffi fóru allir ásamt sínum foringja út í íþróttahús en þar var haldið æsispennandi brennómót áður en drengirnir lögðust á koddann.

Dagskráin í dag: Eftir hvern matartíma er boðið uppá 3-4 tilboð á hinum ýmsu dagskrárliðum. Eftir hádegi í dag var boðið uppá stangartennismót, hástökk og mótorbátsferðir um Eyravatn. Það var fiskur í raspi í hádeginu og í kaffinu verður boðið uppá nýbakaða kanilköku, kókoskúlur og döðlubrauð. Í kvöld er stefnt að því að vera með kvöldvökuna úti ef að veðrið leyfir en hér er svolítið hvasst en við vonumst til þess að það lægi fljótlega.

Fleiri fréttir munu birtast á morgun og næstu daga. Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið bino@re.is eða hafa samband í síma: 4338959.

Hérna er hægt að finna myndir úr flokknum, en við reynum að birta myndir jafnóðum myndirnar sjá HÉRNA !!!