Nú eru krakkarnir öll búin að sofa þrjár nætur í Vatnaskógi og þau sem höfðu ekki verið áður í dvalarflokki, eru því formlega orðin Skógarmenn samkvæmt bæði gömlu og nýju hefðinni (gamla hefðin var þrjár nætur, en eftir tilkomu feðga- og feðginahelga, þá er ntalað um að eftir tvær nætur í dvalarflokki sé maður orðin(n) Skógarmaður).

Annars hélt rigningin áfram í gær en við létum það ekki á okkur fá. Eftir hádegi fórum við í hermannaleikinn þar sem var mikið líf og fjör er Oddverjar og Haukdælir öttu kappi við hvort annað. Meðal móta dagsins voru stangartennis, pool mót og limbó. Svínadalsdeildinni í knattspyrnu lauk í fyrradag, en bikarmót í knattspyrnu hefur tekið við fyrir þau sem að eru á fullu í boltanum. Það er alltaf gaman að fylgjast með boltanum hér í Vatnaskógi, sérstaklega þau sumur sem að HM er. Bátarnir voru síðan á sínum stað og íþróttahúsið og frjálsar. Einnig hefur nýi salurinn í Birkiskála verið nýttur í spil og aðra leiki.

Á kvöldvökunni var Villiöndin síðan á sínum stað með leikrit en ég gleymdi að minnast á fyrr að krakkarnir heyra líka framhaldssögu á kvöldvökunum. Framhaldssaga flokksins í ár er fengin úr bókinni Barist til sigurs eftir Jan Terlouw.

Matarlega séð byrjaði dagurinn á heitu kakói og brauði með úrvali af áleggjum, en annan hvern dag bjóðum við upp á það í morgunmat og hina dagana er cornflakes og cheerios á boðstolnum með mjólk eða súrmjólk og púðursykri. Í hádegismatinn í gær fengum við síðan grísasnitsel með kartöflubátum og í kaffinu voru kanillengjur, sjónvarpskaka og döðlubrauð. Í kvöldmatinn var síðan einn uppáhaldsmatur undirritaðs, sem er ávaxtasúrmjólk með súkkulaðispænum.

Dagurinn í dag hefur byrjað vel og við sáum glitta í eitthvað gult á himninum og vonum að það fari ekki í felur seinna í dag. Við hlökkum til þess sem dagurinn mun bjóða upp á og munum síðan setja inn fréttir af deginum í dag um svipað leyti á morgun.

Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið benjaminrs@hi.is eða hafa samband í síma: 433-8959.

HÉRNA er síðan hægt að finna myndir úr flokknum, en við reynum að birta myndir reglulega í gegnum flokkinn. Stefnt er að því að nýjar myndir verði komnar inn fljótlega eftir hádegismat.

Fyrir hönd forstöðufólksins,
Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson