Veisludagurinn í gær hér í Vatnaskógi gekk vel fyrir sig og var mikið líf og fjör á kvöldvökunni í í gær þar sem að við fengum nokkur leikrit, Sjónvarp Lindarrjóður var á sínum stað, bikaraafhending fyrir sérstök afrek í flokknum og úrslit Biblíuspurningakeppninnar. Einnig var skonrokkið sívinsæla þar sem foringjar og krakkar syngja saman nokkur góð pop-lög með sér Vatnaskógar texta.

Við fengum skyr í hádeginu í gær og í veislukvöldmatinn var síðan bayonskinka með sykruðum kartöflum, salati, rauðkáli og grænum og gulum baunum. Í hádeginu í dag verða síðan pizzur og síðan kleinuhringir með kaffinu. Í hádeginu og kaffinu munum við auglýsa óskilaföt sem að hafa fundist á víð og dreif um Vatnaskóg þessa vikuna. Ef einhver óskilamunanna finnast síðar í Vatnaskógi, munum við síðan senda þá niður á Holtaveg 28 þar sem að hægt verður að leita að óskilafötum ef þið saknið einhvers.

Rúturnar leggja síðan af stað til Reykjavíkur um kl. 15:55 og viljum við biðja þá foreldra/forráðamenn sem hyggjast sækja börnin sín upp í Vatnaskógi að vera komin á svæðið í síðasta lagi kl. 15:45. Ef krakkarnir verða sóttir er mikilvægt að við vitum það í tíma svo að þau geti sett farangurinn sinn til hliðar og hann fari ekki í rútuna. Rúturnar koma síðan að KFUM og KFUK húsinu í Reykjavík um kl. 17.

Það er búið að vera virkilega gaman að vera með öllum krökkunum og kynnast þeim hér í Skóginum og erum við þakklát fyrir samveruna með þeim þessa síðastliðnu viku. Fyrir hönd alls starfsfólksins hér, vil ég því þakka það traust sem foreldrar og forráðamenn sína okkur með því að senda börn sín í sumarbúðir og við tökum það traust alvarlega. Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi í tengslum við 8. flokk, þá getur þú sent tölvupóst á benjaminrs@hi.is eða haft samband við skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík, sími 588 8899.

Myndir frá flokknum má síðan finna á eftirfarandi vefslóð, en gera má ráð fyrir að myndir frá síðustu dögum flokksins verði færðar inn síðar í dag eða á morgun: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157698867842354