Þá er vel liðið á fimmta flokk og drengirnir orðnir löglegir Skógarmenn, en samkvæmt lögum Skógarmanna KFUM verður hver sá sem dvelur tvær nætur samfleytt í dvalarflokki í Vatnaskógi Skógarmaður.

Veðrið hefur leikið við okkur þessa vikuna. Á þriðjudaginn var skýjað, en hlýtt og gott veður og gátum við boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Í gær (miðvikudagur) gekk allt eins og í sögu og var veðrið mjög gott, sólríkt, en smá vindur.

Keppt var í knattspyrnu, í Svínadalsdeildinni, en þá keppa borð drengjanna sín á milli. Það hafa verið margir skemmtilegir leikir og flott mörk skorðuð, drengirnir á 4. borði leiða keppnina, en fast á hælum þeirra fylgja svo drengirnir á 5. borði. Bátarnir hafa verið opnir og hafa flestir drengjanna prófað að róa og margir reynt að veiða þó það hafi ekki bitið á hjá neinum enn þá. Í gær var keppt í langstökki án atrennu, 60 m hlaupi og í dag fengu drengirnir að prófa kúluvarp og spjótkast.

Eftir hádegismat í gær (miðvikud) fóru allir drengir út í Oddakot sem er hér við enda Eyrarvatns (u.þ.b. 20mín ganga), þar var farið í hin sívinsæla hermannaleik og eftir það voru margir sem skeltu sér aðeins í vatnið, en við Oddakot er sandfjara sem gaman er að vaða í og oft kölluð af Skógarmönnum: „Kosta del Oddakot“

Í morgunmat í gær var fengu drenginir brauð og heitt kakó sem slær alltaf í gegn. Í hádeginu var boðið upp á steiktan fisk og í kvöldmatinn voru grillaðar pylsur sem vöktu mikla lukku hjá strákunum. Með kaffinu fengur strákarnir að sjálfsögðu hinar víðfrægu þrjár sortir í Vatnaskógi: skúffuköku með grænu kremi, súkkulaðibitakökur og ljúfengt kryddbrauð.

Allir drengirnir hafa staðið sig  vel og ánægjulegt að vera hér með þeim. Hér eru margir ungir drengir sem eru að fara að heiman í fyrsta skipti sem getur verið krefjandi, þeir eru hugrakkir og vinna hvern persónulega sigurinn á fætur öðrum. Við leggjum okkur fram við að leiðbeina þeim í kærleika, styðja við bakið á þeim og finna jákvæðir leiðir þegar smávægileg heimþrá bankar uppá. Það er alls ekki óeðlilegt að sakna mömmu og pabba og ekkert eðlilegri en smá heimþrá! Í þeim tilfellum þar sem vanlíðan kemur fram höfum við samband við foreldra og ræðum málin.

Myndir úr flokknum eru hér sem fyrr hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157714919757113