Þá er fjórði og jafnframt síðasti heili dagurinn í Vatnaskógi hafinn, veisludagur. Á döfinni er mikil skemmtun út allan daginn og langt fram eftir kvöldi, en áður en lengra er haldið skal tekið fram að þetta mun verða síðasta fréttin sem verður skrifuð, þannig endilega lesið hana til enda þar sem koma munu fram upplýsingar um brottfarardaginn.

Dagskrá veisludags

Eftir morgunstund munu borðin sem drengirnir sitja við taka þátt í forkeppni fyrir biblíuspurningakeppnina sem haldin verður á veislukvöldvökunni en tvö stigahæstu borðin keppa þar til úrslita. Brekkuhlaupið verður haldið fyrir hádegi en það er jafnframt síðasta frjálsíþróttagreinin í flokknum. Þythokkýmót er í fullum gangi og klárast fyrripart dagsins, þá verða bátarnir og smíðaverkstæðið opið eins og venju samkvæmt, ásamt íþróttahúsinu og heitum pottum. Þá verður brandarakeppni seinnipart dags þar sem Fyndnasti Skógarmaðurinn verður krýndur. Eftir hádegi er áætlaður stórleikur milli Stjörnu- og Draumaliðs drengja í knattspyrnu, sem keppa sitthvorn hálfleikinn gegn ógnarsterku og ósigruðu liði Foringja, sjáum hvernig fer!

Um kvöldið verður veislumatur og í framhaldi veislukvöldvaka, sem er talsvert lengri en fyrri kvöldvökur, með mörgum skemmtilegum uppákomum og tilheyrandi hlátrasköllum.

Matseðill

Morgunmatur: Morgunkorn og súrmjólk.

Hádegismatur: Skyr og nýbakað brauð.

Kaffitími: Súkkulaðikaka, pizzasnúðar og hlunkakökur

Kvöldmatur:  Vínar Snitzel með brúnni sósu, bökuðum kartöflum, salati, maís og grænum baunum, rauðkál og gos baukur frá ölgerðinni.

Kvöldhressing: Ávextir og kex.

Dagskrá brottfarardags, 22.júní

Drengirnir hafa verið vaktir kl. 08:30 á morgnana en á brottfarardag er venja að gefa þeim ögn lengri svefn. Haninn mun því gala kl. 09:00, þá munu drengirnir fara í morgunmat, pakka í töskur, finna dótið sitt og halda svo út í frjálsan tíma og skipulagða hópleiki áður en haldið verður í hádegismat og síðan verða óskilamunir kynntir sem fundist hafa á víð og dreif um svæðið.

Rútan leggur af stað frá Vatnaskógi kl. 14:00 og áætluð koma á Holtaveg 28 er því kl. 15:00.

Þau ykkar sem hyggjast sækja drengina sína í Vatnaskóg eru beðin um að koma eigi síðar en kl. 13:45. Vinsamlegast látið vita ef þið ætlið að sækja ykkar drengi sjálf ef þeir eru skráðir í rútuna heim, svo töskurnar þeirra fari ekki upp í rúturnar. Þeir sem verða sóttir í Vatnaskóg munu koma farangri sínum fyrir framan matskálann. Endilega látið vita sem fyrst en símatíminn er eins og fyrr segir milli kl. 11:00-12:00 og síminn er 433 8959.

Allir óskilamunir sem ekki skila sér til drengjanna í Vatnaskógi munu fara á Holtaveg 28 í Reykjavík, félagsheimili KFUM og KFUK.

Matseðill

Morgunmatur: Morgunkorn og súrmjólk

Hádegismatur: Vatnaskógarpizzur

Þetta er síðasta færslan frá 3. flokki 2024. Við sem störfum í Vatnaskógi erum þakklát fyrir það traust sem foreldrar sína okkur með því að senda börn sín í sumarbúðir og tökum það traust alvarlega. Það er og metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi í tengslum við 3. flokk getur þú sent tölvupóst á arsaell@kfum.is eða haft samband við skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík, sími 588 8899.

Myndir frá veisludegi koma hingað inn.  Ath. fleiri myndir frá veislukvöldi.

Vatnaskógur