Þá er flokkurinn rúmlega hálfnaður og koma hér fréttir frá því í fyrradag.
Drengirnir voru vaktir kl. 8:30 við ljúfan söng. Hófst dagurinn á morgunmat og morgunstund. Frjáls tími tók svo við með venjulegri dagskrá.
Í hádegismatnum komu drengirnir 12 sem höfðu farið í útileguna. Ferðin var mikil ævintýraför þar sem kvöldkaffið var grillað yfir opnum eldi og sykurpúðar í kjölfarið. Haldin var skemmtileg og lifandi kvöldvaka þar sem foringjarnir tveir sem fóru með fóru á kostum. Sofið var svo undir berum himni og sögðust allir hafa notið dvalarinnar og kuldaboli hafi ekki náð að bíta fast í þetta skiptið. Morguninn eftir komu drengirnir við í hylnum sem er hér nálægt Vatnaskógi og hoppuðu þeir í hann. Algjör ævintýraferð sem þarna var farin.
Seinni partinn drógu bátaforingjar drengi á tuðrunni úti á vatni og lukkaðist það mjög vel þó að það hafi ekki náðst að klára að fara með alla vegna veðurs. Vonandi náum við að klára það síðar í flokknum.
Á kvöldvaktinni var prófað að fara í sjóræningjaratleik. Aldrei áður hefur þetta verið prófað en heppnaðist hann vel í þetta skiptið – nóg af nýjungum í þessum flokki.
Um kvöldið var svo haldin kvöldvaka í skógarkirkju undir berum himni. Sungið var yfir varðeldi, hlustað á framhaldssögu og leikhópurinn villiöndin steig á svið, í þetta sinn voru það eldhússtúlkurnar sem tóku hresst leikrit og sló það rækilega í gegn.
Brjálað að gera uppi í skógi og myndir má sjá hér.
Hafið það sem allra best – við höfum það allavega mjög gott hér 😀
Arnór og Hilmar – forstöðumenn.