Á Heilsudögum karla fögnuðu Skógarmenn verklokum á 1. hluta Birkiskála II. Um er að ræða stækkun við Birkiskála I og bætast við 4 herbergi fyrir dvalargesti, eitt leiðtogaherbergi, tvö salerni, ræstiherbergi, þvottahús og geymsla. Auk þess var lokið við stofu sem tengir eldra og nýja húsið saman. Við þessa athöfn rakti Ólafur Sverrisson,formaður Skógarmanna, byggingarsögu hússins og sr. Jón Dalbú Hróbjartsson flutti blessunarorð. Næsta skref, í Birkiskála II, er að innrétta stóra salinn í miðrými hússins og er mikill hugur í Skógarmönnum. Sem fyrr ræðst framkvæmdahraði af fjármögnun.
Við athöfnina var Þóri S. Guðbergssyni veitt Gullmerki Skógarmanna en Þórir starfaði á árunum 1957-1964 í Vatnaskógi bæði sem foringi og einnig sem forstöðumaður og vann mjög óeigingjarnt starf í þágu Vatnaskógar. Það var því með miklu þakklæti sem Ólafur Sverrisson formaður Skógarmanna afhenti Þóri gullmerki Skógarmanna.