Jón Gnarr heimsótti Vatnaskóg dagana 14. til 15. júní en hann lét af embætti sem borgarstjóri þann 16. júní þannig að hann varði síðustu dögunum sínum sem borgarstjóri í Vatnaskógi. Skoðaði Jón aðstöðuna, spjallaði við drengina á hátíðarkvöldvöku og vakti mikilla lukku þar sem hann hvatti meðal annars drengina til að setja sér markmið og fylgja þeim. Brá Jón einnig á leik og flutti nokkra þekkta frasa úr þeim hlutverkum sem hann er hvað þekktastur fyrir. Jón kom ásamt séra Sigurði Árna Þórðarsyni en Sigurður sá um Skógarmannaguðsþjónustu á sunnudeginum. Var góður rómur gerður að heimsókn þeirra félaga en þeir áttu báðir syni í flokknum, Jón einn og Sigurður Árni tvo.