Enginn er verri þótt hann vökni.  Það er óhætt að taka þessi orð til sín þessa dagana því forsenda alls lífs fellur reglulega af himni hjá okkur.  Samt er mjög gaman og drengirnir skemmta sér konunglega.  Þeir eru kraftmiklir, taka hraustlega undir sönginn og ljóma af gleði.  Þeir eru duglegir að nýta hin fjölbreyttu dagskrártilboð sem í boði eru.  Margir eru að læra það í fyrsta sinn á ævinni að fötin þeirra fara ekki sjálf upp á snúru.  Í Vatnaskógi eru sérstök þurrkherbergi fyrir blaut föt sem nóg er af þessa dagana.  Enginn er þó orðinn fatalaus.  Margir láta votviðrið ekkert á sig fá, galla sig bara upp og halda út í skóg að byggja skógarkofann eða út á bát að veiða eða róa.  Smíðastofan er vinsæl sem og íþróttahúsið enda margt við að vera þar.  Af þeim ca. 100 drengjum sem eru hér nú hafa um 70 komið áður.  Hinir urðu Skógarmenn í gær en Skógarmaður er hver sá sem dvelur í Vatnaskógi í tvær nætur í flokki á vegum Skógarmanna KFUM.  Yfir 20.000 núlifandi íslenskra karlmanna tilheyra hópi Skógarmanna.  Sumarbúðirnar hafa starfað í yfir 90 ár þannig að margar kynslóðir hafa komið hingað og notið staðarins.  Margt hefur breyst á þessum 90 árum því fyrstu árin var gist í tjöldum.  Nokkrar myndir voru teknar í gær og má smella hér til að sjá þær.  Kær kveðja, Sigurður Grétar Sigurðsson.