Í Vatnaskógi er mikið sungið, hér má sjá sýnishorn af nokkrum söngvum sem oft eru sungnir í Vatnaskógi.

Ljómandi Lindarrjóður

Ljómandi Lindarrjóður
Loks fæ ég þig að sjá.
Vorið með vildargróður
veita hér unað má.

Hér á ég heima,
hér best ég næ,
djarflega’ að dreyma
dýrð Guðs sí og æ.
Gott er að gleyma
glaumnum í bæ,
Guðs náðar geyma
gnótt, sem hér ég fæ.

Lind mín með löginn tæra,
lifandi bunan þín,
svölun mér fljótt mun færa
fegin er sála mín.

Einatt með öldu niði
Eyrarvatn skemmtir mér.
Lofsöng í laufakliði
ljúft þá að eyrum ber.

Æskan á einnig hljóma,
iðandi kæti’ og fjör.
Augu sem lýsa’ og ljóma,
leikandi bros á vör.

Friðrik Friðriksson

Á bátunum piltarnir bruna

Á bátunum piltarnir bruna,
og bárurnar vagga þeim rótt.
Við árarnar löngum þeir una.
Að árinni venjast þeir fljótt.

Vatnið! Vatnið!
Já, vatnið og skógurinn allt í kring.
Vatnið! Vatnið!
Já, vatnið er hreinasta þing.

Á fleytunum flakka þeir víða,
þær fljóta svo léttar sem skel.
Þær skríða, þær skvettast, þær líða.
Þá skemmta sér piltarnir vel.

En oft kemur óboðin skvetta,
og annarri móti er beitt.
En verra’ er í vatnið að detta,
og verst er að hafa sig bleytt.

En vatnið er viðsjált í lyndi,
og vindhrynur koma þar snöggt.
Þá reynir á ráðsnilld og skyndi,
og rammleik og veðurskyn glöggt.

Magnús Runólfsson

 

Kenn þú mér Guð

Kenn þú mér Guð að þekkja vilja þinn,
þrá lát mitt hjarta æ að sé hann minn.
Skammsýnn ég er, ó, vísa mér þinn veg,
veit þú mér styrk ef hrasa ég.

Drottinn, þú veist hve sljótt mitt auga er,
opna það, Drottinn minn, uns glöggt það sér
veg þinn og ljós en umfram allt samt þig,
eilífi Guð sem dóst fyrir’ mig.

Ó hversu sælt ef aðeins á ég þig,
eilífi Guð, er frelsar sekan mig.
Hjarta mitt gleðst að allt þitt auga sér.
Eilífi Guð það nægir mér.

Bjarni Eyjólfsson

Áfram, Kristsmenn, krossmenn

Áfram, Kristsmenn, krossmenn,
kóngsmenn erum vér.
Fram í stríðið stefnið,
sterki æskuher.
Kristur er hinn krýndi
kóngur vor á leið;
sjáið fagra fánann
frelsis blakta’ á meið.
Áfram, Kristsmenn, krossmenn,
kóngsmenn erum vér.
Fram í stríðið stefnið,
sterki æskuher.

Gjörvöll Kristí kirkja
kveður oss með sér.
Fjendur ótal eru,
ei þó hræðast ber.
Konungsstólar steypast,
stendur kirkjan föst,
bifast ei á bjargi
byggð, þótt dynji röst.

Áfram, Kristsmenn, krossmenn,
kóngsmenn erum vér.
Fram í stríðið stefnið,
sterki æskuher.

Komið, allar álfur,
allra þjóða menn!
Veitið oss að vígi,
vinna munum senn.
Allar englatungur
undir taki’ í söng:
Dýrð og lof sé Drottni,
dýrð í sæld og þröng.

Áfram, Kristsmenn, krossmenn,
kóngsmenn erum vér.
Fram í stríðið stefnið,
sterki æskuher.

S. Baring-Gould – Friðrik Friðriksson.

 

Hver er í salnum

Hver er í salnum? Hlusti nú drótt!
Hingað inn kemur frelsarinn skjótt,
opnar mér faðminn, hvíslar svo hljótt:
„Hér er ég, vinur minn!“

Kór:
Svara, svara: „Vertu velkominn,
vissulega ertu Drottinn minn.
Hjarta mitt fagnar hér ertu nær,
herra minn Jesús kær.“

Hendur hans lít ég, sármerkin sé
sál mín í lotning fellur á kné;
fætur hans kyssi’ eg kvalda á tré.
„Kom nú!“ hann segir blítt.

Hingað svo kem ég fund eftir fund,
finnst mér hér inni sælunnar stund,
hvíslar hann að mér, út réttir mund:
„Eg er hér, vinur minn!“

 Friðrik Friðriksson

 

Kvöldsöngur Skógarmanna

Ó, vef mig vængjum þínum
til verndar, Jesús, hér,
og ljúfa hvíld mér ljáðu,
þótt lánið breyti sér.
Vert þú mér allt í öllu,
mín æðsta speki’ og ráð,
og lát um lífs míns daga
mig lifa’ af hreinni náð.

Tak burtu brot og syndir
með blóði, Jesús minn,
og hreint mér gefðu hjarta
og helgan vilja þinn.
Mig geym í gæslu þinni.
Mín gæti náð þín blíð,
að frið og hvíld mér færi
hin fagra næturtíð.

Lina Sandell – Magnús Runólfsson