Nú er fimmti flokkur sumarsins kominn í fullan gang hér í Vatnaskógi. Drengirnir eru rétt tæplega 100 talsins og gengur allt vel. Þessa viku eru yfir 20 starfsmenn og sjálfboðaliðar í skóginum. Elsti starfsmaðurinn kominn rétt yfir sjötugt og yngstu sjálfboðaliðarnir eru á sextánda ári.
Borðforingjar í 5. flokki eru Páll Ágúst Þórarinsson, Árni Bergs, Birkir Bjarnson (þó ekki sá sem lék tuðruspark í Frakklandi með góðum árangri) Benjamín Gísli Einarsson, Gunnar Hrafn Sveinsson, Matthías Guðmundsson og Hans Patrekur Hansson. Auk þeirra eru eldri foringjar þeim til halds og trausts, þeir Baldur Ólafsson, Davíð Örn Sveinbjörnsson, Jón Gunnar Bergs, Pétur Ragnarsson auk undirritaðs sem er forstöðumaður og heiti Ársæll Aðalbergsson og hef starfað sem forstöðumaður hluta af sumri síðan 1994 og starfað sem framkvæmdastjóri Vatnaskógar síðan 1999.
Umsjón með verklegum framkvæmdum hafa þeir Sigurður Jóhannesson, Þórir Sigurðsson og Ögmundur Ísak Ögmundsson.
Í þessum flokki er eldhúsinu og þrifum er stýrt af Gunnar Guðnasyni og Hreiðari Erni Stefánssyni og þeim til aðstoðar eru Gunnhildur Einarsdóttir, Agnes Þorkelsdóttir, Una Kamilla Steinsen og Rebekka Ingibjartsdóttir. Þess utan verða hvorki fleiri né færri en fjórir matvinnungar á svæðinu, ungir framtíðarleiðtogar í starfi KFUM og KFUK sem grípa í hvers kyns verkefni á svæðinu, hvort sem það er aðstoð í gönguferðum, uppvask, smíðar eða skipulag leikja undir umsjón foringja.
Fyrsti dagurinn í fimmta flokki Vatnaskógar gekk mjög vel, prýðilegt veður, gott bátaveður framan af en síðan kom hressileg gola úr norð-austri þannig að bátunum var lokað. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá, hópur drengja tók þátt í leikjum og knattspyrnumóti, hlupu 60 metra hlaup í frjálsíþróttamótinu og/eða kepptu í kúluvarpi og langstökki. Smíðaverkstæðið okkar var vinsælt allan daginn og þess utan var boðið upp á þythokkýmót, stutta gönguferð um svæðið og fleira.
Fyrsta kvöldvakan gekk vel, drengirnir heyrðu fyrsta hluta framhaldssögunnar. Þá var sungið af krafti, leikrit var flutt og í lokin heyrðu strákarnir sögu Jesú og systurnar Maríu og Mörtu. Langflestir drengirnir sofnuðu fljótt eftir viðburðarríkan dag.
Í dag þriðjudag hófst samkvæmt venju á fánahyllingu og Biblíulestri, þar sem við ræddum m.a. um fjölbreytileika sköpunarverksins.
Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á arsaell@kfum.is
Veðrið: Sól, hiti um 17° frábært veður – sólarvörn í dag.
Maturinn: í gær var boðið uppá ávaxtasúrmjólk með brauði, kaka og brauð í kaffinu, grillaðar pylsur í kvöldmat og ávextir í kvöldhressingu. Í dag var boðið upp á Cheerios og kornflögur í mjólk og súrmjólk og kjúklingur í hádegismat, kaffibrauð í kaffinu og skyr í kvöldmat.
Fyrstu myndir koma HÉRNA.
Með kveðju úr Vatnaskógi
Ársæll Aðalbergsson