Í dag njótum við þess að veðrið er milt og hentar vel til þess að fara út á bát og bátaforingjarnir eru auk þess að fara ferðir með strákanna á mótorbát.
Við bjóðum upp á ýmis verkefni fyrir þá sem vilja hafa áhuga á smíðum og myndlist.
Í Íþróttahúsinu halda áfram bæði frjálsir leikir og mót í borðtennis og fleiri íþróttum, fótboltamótið heldur áfram sem og frjálsar íþróttir.
Við kappkostum að bjóða öllum að taka þátt í því sem þau hafa áhuga að gera og leggjum áherslu að bjóða og hvetja drengina að taka þátt í sem flestu a.m.k. fyrstu dagana.
Starfsfólk
Vatnaskógur er einstakt svæði sem býður upp á fjölbreytta afþreyingu, skemmtun og fræðslu en lykillinn að góðu starfi okkar er það frábæra starfsfólk sem við höfum:
Forstöðumaðurinn og sá sem ritar þessar fréttir heitir Sigurður Pétursson (kallaður Siggi P.) og hefur að baki um fjögurra áratuga reynslu sem sjálfboðaliði í starfi Skógarmanna.
Foringjar sem annast dagskrá og umönnun barnanna í flokknum og þeir eru:
Eiríkur, 1. borð – Bátaforingi
Greipur, 2. borð – Fótboltaforingi
Tristan, 3. borð – Alhliðaforingi
Guðmundur Tómas, 4. borð – Frjálsíþróttaforingi
Hálfdán, 5. borð – Útileikjaforingi
Jakob Freyr, 6. borð – Innileikjaforingi
Davíð og Baldur eru einnig Alhliðaforingjar, þar sem Davíð er mest að sinna bátum og smíðaverkstæði og Baldur innileikjum og fleira
Einnig eru ungir aðstoðaforingjar á svæðinu, í undirbúningi sem framtíðarleiðtogar í starfi KFUM og KFUK. Þeir ganga í allskonar verkefni á svæðinu, hvort sem það er aðstoð í gönguferðum, uppvask, smíðar, frágangur, tiltekt á svæðinu og margt fleira. Aðstoðarforingjar þessa flokks eru þau Messíana, Bríet, Tómas Ingi og Hallur.
Sverrir er matráðsmaður í þessum flokki og hefur einnig umsjón yfir þrifum staðarins. Starfsfólk eldhússins eru Eva, Hrannar og Karen Sól.
Þá eru Þórir Sigurðsson og Sigurður Jóhannesson í flokknum en þeir koma að ýmsu daglegu viðhaldi á tækjum og húsnæði.
Svo fáum við ýmsa reynslubolta sem koma sem sjálfboðaliðar í sérverkefni s.s. Ástráður sem sinnir gönguferðum og útivist í dag og á morgunn eigum við von á sérfræðing í tölvuleikjagerð til þess að vera með fræðslu.
Heimþrá
Það er ekkert óeðlilegt við það finna fyrir heimþrá og þá sérstaklega fyrstu dagana. Flestir þurfa tíma til þess að aðlagast nýjum aðstæðum og við starfsfólkið vinnum líka í því með drengjunum að finna hvað þeim finnst skemmtilegast að gera og hentar þeim til þess að fá sem mest út úr dvölinni í Vatnaskógi.
Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki áhrif nema á lítinn hluta þeirra sem dvelja hjá okkur þá er okkur mikilvægt að nálgast þá sem það upplifa með virðingu og skilning. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg. Þegar heimþrá nær tökum á börnunum, geta þau komið með ásakanir, lokað sig af, reiðst og/eða notað samningatækni til að takast á við vanlíðan/sorgina. Stundum fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) en getur einnig komið fram sem hausverkur eða stirðleiki í liðum.
Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, enda fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir mörg börnin í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar og þeir hafa ekki hugmynd um hvernig hægt er að takast á við þær.
Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra og höfum samband strax og við teljum að tilfinningarnar hefti tækifæri barnanna til að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi barn þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum við að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að leyfa barninu að njóta sín. Samskipti og samstarf milli allra aðila, barns, foreldra og starfsmanna er lykill að þessu.
Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi er sú að hjálpa barninu að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðaninni að tækifærunum.
Við trúum því að þessi reynsla barnanna og það að láta ekki stjórnast af vanlíðan, þó hún sé viðurkennd, sé mikilvæg fyrir börnin og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi. Við skiljum þó líka að það getur gerst að aðstæður, upplifun og tilfinningar barnanna séu þess eðlis að þeir eru einfaldlega ekki tilbúnir til að takast á við dvölina og þurfa að vera skemur en áætlað var í upphafi. Það gerist þó mjög sjaldan.
Ef það eru einhverjar spurningar þá er símatími forstöðumanns á milli 11:00 og 12:00 alla daga. Símanúmerið er: 433 8959 og þess á milli hægt að koma skilaboðum áfram til forstöðumanns.
Á meðfylgjandi tengingu hefur verið bætt inn myndum eftir daginn: MYNDIR