Brottför
Þá er það komið að lokum hjá okkur að þessu sinni og rútan fer af stað frá Vatnaskógi um klukkan 14 í dag og kemur á Holtaveg 28 um klukkustund síðar, eða um kl 15.

Óskilamunir
Starfsfólk fer um staðinn og safnar saman fötum og óskilamunum sem auglýst er með drengjunum og gengur vel fyrir þá hluti sem eru merktir en því miður alltaf hluti sem gengur ekki út.
Óskilamunir úr flokknum sem ekki ganga út fara með rútunni og ef það uppgötvast að hlutum hafi verið gleymt er hægt að sækja þá á Holtaveginn.

Kveðjustund
Eftir morgunmat fóru börnin að pakka, með aðstoð foringja. Þegar því var lokið var hægt að fara út á báta, vera í íþróttahúsinu eða taka þátt í skipulögðum leikjum úti áður en haldið var í hádegismat. Heimagerð pizza er í matinn á brottfaradegi og síðan er lokastund. Á lokastundinni var algjör þögn þegar bakarinn okkar hún Eva sagði þeim söguna „Þú ert frábær“ sem eru skilaboð sem vel eiga við um þennan frábæra hóp

Fjallað var um heimþrá og kvíða í fyrri fréttafærslu enda mjög algeng tilfinning sem margir fá. Það er svo mikill sigur hjá þeim fjölmörgu sem náðu að yfirvinna þessa áskorun tóku mikið þroskaskref sem við væntum að hjálpi þeim. Það er mismunandi langt síðan við starfsfólkið vorum í dvalarflokkum og mörg okkar tókust á við sömu áskoranir og drengirnir ykkar og getum deilt af þeirri reynslu og ávinningi.

Í flokknum voru drengir sem eru flóttamenn frá Úkraínu og sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með hvað margir aðstoðuðu þá við að falla í hópinn. Það verður ekkert rætt sérstaklega en þið megið endilega ræða það við börnin ykkar og segja þeim að við fylgdumst með þessu úr fjarlægð og með aðdáun og þakklæti.

Það er okkar hófsama mat að strákarnir skemmtu sér vel og eignuðust góðar minningar og vini. Allir voru duglegir að sækja þá dagskrá sem var í boði sem gerir það að verkum að Vatnaskógar upplifunina góða.

Við starfsfólk Vatnaskógar þökkum kærlega fyrir okkur og vonum að krakkarnir hafa notið dvalarinnar. Hlökkum til að taka á móti þeim að ári.

Sæludagar
Bendum á fjölskylduhátíð um Verslunarmannahelgina, Sæludagar sem nánar er hægt að fræðast um hér á vefsíðu Skógarmanna. Það er hægt að koma í dagsferðir og skoða með drengjunum ykkar þá aðstöðu sem við höfum hér í Vatnaskógi.

Hægt er að skoða allar myndir úr flokknum hér og bæst hafa inn myndir líka frá Hátíðarkvöldvöku okkar í gær:MYNDIR

Með kveðju úr Vatnaskógi mun hitta sum ykkar á Holtaveginum á eftir,
Sigurður Pétursson (Siggi P.)
Netfang: sp@novofood.com
Hægt að senda mér póst ef þið hafið eitthvað sem þið viljið deila með mér en við Skógarmenn vinnum markvist eftir mottói okkar „Áfram að markinu“. Vitum að við getum alltaf bætt starfsemi okkar sem mun fylla heila öld (frá 1923) á næsta ári og lært af reynslunni og ábendingum.