Dagskrá veisludags
Brekkuhlaupið var haldið fyrir hádegi en það var jafnframt síðasta frjálsíþróttagreinin í flokknum. Ýmsar keppnir klárast í dag, íþróttahúsið var opið með heitum pottum ofl. Eftir hádegi var stórleikur milli Stjörnu- og Draumaliðs drengja í knattspyrnu og sitthvorn hálfleikinn gegn ógnarsterku liði foringja! Vatnafjör hélt áfram og marg annað var í boði.
Eftir morgunstund tóku borðin sem drengirnir sitja við þátt í forkeppni fyrir biblíuspurningakeppni og tvö stigahæstu borðin borð 2 og 5 kepptu til úrslita á veislukvöldvökunni þar sem 2. borð fór með sigur að hólmi.
Um kvöldið var veislumatur og í framhaldi veislukvöldvaka, sem var talsvert lengri en fyrri kvöldvökur, með mörgum skemmtilegum uppákomum og tilheyrandi hlátrasköllum.
Veðrið! Búið að rigna í morgun en stytti upp um miðjan dag en svo kom rigning aftur.
Matseðill
Morgunmatur: Morgunkorn og súrmjólk.
Hádegismatur: Hlaðborð, ýmsir réttir.
Kaffitími: Kaka og fleira meðlæti.
Kvöldmatur: Vínar Snitzel með brúnni sósu, bökuðum kartöflum, salati, maís og grænum baunum, rauðkál og gos baukur frá ölgerðinni.
Kvöldhressing: Mjólk/vant og kex.
Dagskrá brottfarardags, 16. ágúst
Drengirnir hafa verið vaktir kl. 08:30 á morgnana en á brottfarardag er venja að gefa þeim ögn lengri svefn. Haninn mun því gala kl. 09:00, þá munu drengirnir fara í morgunmat, pakka í töskur, finna dótið sitt og halda svo út í frjálsan tíma og skipulagða hópleiki áður en haldið verður í hádegismat og síðan verða óskilamunir kynntir sem fundist hafa á víð og dreif um svæðið.
Rútan leggur af stað frá Vatnaskógi kl. 14:00 og áætluð koma á Holtaveg 28 er því kl. 15:00.
Þau ykkar sem hyggjast sækja drengina sína í Vatnaskóg eru beðin um að koma eigi síðar en kl. 13:30. Vinsamlegast látið vita ef þið ætlið að sækja ykkar drengi sjálf ef þeir eru skráðir í rútuna heim, svo töskurnar þeirra fari ekki upp í rúturnar. Þeir sem verða sóttir í Vatnaskóg munu koma farangri sínum fyrir framan matskálann. Endilega látið vita sem fyrst en símatíminn er eins og fyrr segir milli kl. 11:00-12:00 og síminn er 433 8959.
Óskilamunir.
Við reynum að koma öllum óskilamunum í réttar hendur og það sem kemur með rútuni verður sett fyrir framan innanginn á Holtavegi 28 um leið og rútan kemur – um að gera að kíkja á það.
Allir óskilamunir sem ekki skila sér til drengjanna munu fara á Holtaveg 28 í Reykjavík, félagsheimili KFUM og KFUK.
Matseðill
Morgunmatur: Morgunkorn og súrmjólk
Hádegismatur: Vatnaskógarpizzur
Þetta er síðasta færslan frá 12. flokki 2024. Við sem störfum í Vatnaskógi erum þakklát fyrir það traust sem foreldrar sína okkur með því að senda börn sín í sumarbúðir og tökum það traust alvarlega. Það er og metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi í tengslum við 12. flokk getur þú sent tölvupóst á arsaell@kfum.is eða haft samband við skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík, sími 588 8899.
Myndir frá flokkum m.a. nokkrar frá veislukvöldi.
Ársæll Aðalbergsson, forstöðumaður.