Á bátunum piltarnir bruna
Við fögnum alltaf 3. degi hvers flokks sérstaklega og lítum á þann dag sem ákveðin tímamót, því að þeir sem eru að koma í fyrsta skipti í Vatnaskóg teljast nú til Skógarmanna, en til þess þarf maður að dvelja tvo sólarhringa hér í dvalarflokki. Af því tilefni fræddum við strákana á morgunstund um 102 ára sögu Vatnaskógar og uppbyggingu staðarins sem vakti mikinn áhuga þeirra. Veðrið lék við okkur í dag og því vorum við með morgunstundina inni í skógi. Til hamingju með drengina ykkar sem teljast nú fullgildir skógarmenn, og mikið stolt sem fylgir því.
Dagskrá dagsins
Fjölmargir dagskráliðir voru í boði í dag hjá okkur. Pool, stangartennis, körfubolti, spjótkast, kassabílarallý, fótboltaspil, og ,,Mr. Beast“ þraut (síðastur til að fara úr hringnum), svo fátt eitt sé nefnt. Íþróttahúsið var opið með öllum sínum leiktækjum. En við nýttum sólina í dag til að vera í eins mikilli útivist og kostur var. Bátarnir, veiðar, knattspyrna, hópleikir, kubb, ultimate frisbee og vatnafjör. Strákarnir fengu meira að segja að henda foringjum sínum út í vatnið, sem vakti mikla kátínu. Það er því nóg að gerast og strákarnir skemmta sér konunglega, tíminn líður hratt og dvölin nú meira en hálfnuð.
Á morgun er svokallaður veisludagur, sem er haldinn hátíðlegur með frábrugðinni dagskrá, þar sem foringjar munu etja kappi á móti drengjunum í alls kyns keppnum t.a.m. brennó og fótbolta. Um kvöldið verður svo veislukvöldmáltíð, þar sem við verðum allir búnir að snyrta okkur og sturta eftir erfiði dagsins og snæðum á gómsætum mat í okkar fínasta pússi. Að því loknu verður veislukvöldvaka, þar sem við gerum upp flokkinn með myndasýningu og verðlaunaafhendingu. Meira um það í næstu frétt 🙂
Matseðill dagsins
Morgunverður: Brauð og álegg með kakó
Hádegisverður: Kjúklingahamborgari, franskar og salat
Síðdegishressing: Kaka og brauðmeti & kókoskúlur sem strákarnir fengu að baka sjálfir
Kvöldverður: Kjötbollur, kartöflumús og salat
Kvöldhressing: Íþróttanammi að hætti hússins (niðurskornir ávextir)
Símatími verður á sínum stað og er opinn milli kl. 11-12 á morgun.
Minnum á myndasíðuna okkar sem uppfærist yfir daginn:
Myndir úr Vatnaskógi
Með kveðju,
Pétur Sigurðsson, f.h. forstöðumanna.