5 flokkur – Veisludagur og síðasta frétt

Höfundur: |2025-07-02T10:42:45+00:002. júlí 2025|

Veisludagur

Þá er síðasti heili dagurinn hafinn hér hjá okkur í Vatnaskógi og dagskráin er þétt. Fyrsti rigningardagurinn en engar áhyggjur við höfum sparað alla helstu innileiki fyrir drengina. Dagurinn hefst á notalegri morgunstund og svo er haldið inn íþróttahús þar sem það verður borðakeppni í Brennó, þar sem foringjar keppa með sínu borði á móti hinum borðunum. Eftir hádegi verður hátíð á knattspyrnuvellinum þar sem drengirnir etja kappi við ógnarsterkt lið foringja í knattleik. Búast má við svita, tárum, brosum, aðalega það síðarnefnda. Heiðurinn er undir hjá foringjaliðinu og montréttur andstæðinganna tryggður ef svo ólíklega vill til að þeir vinni. Sjáum hvernig fer.

Það er sannkölluð veislumáltíð í kvöld, myndataka og kvöldvaka sem er af lengri og dýrari gerðinni, með bikarafhendingu, Biblíuspurningakeppni, leikritum, Sjónvarp Lindarrjóðri og lokapartinum í framhaldssögu um hann Pál geimfara.

Við fögnum nokkrum afmælum á þessum stórmerka 2 júlí. Drengur á 4 borði hann Teódor fagnar deginum sínum,  matráðurinn Valborg Rut Geirsdóttir fagnar hvorki meira né minna en 20 ára starfsafmæli og undirritaður er einnig árinu eldri í dag. Því er til mikils að fagna og ég er ekki frá því að við fáum að standa á stól og gæða okkur á afmælisköku í kaffinu í dag.

Matseðill dagsins

Morgunverður: Morgunkorn og mjólkurvörur
Hádegisverður: Úrvals afgangar frá vikunni (enga matarsóun hér takk) ásamt ávaxtasúrmjólk (NAMM)
Síðdegishressing: Kaka og brauðmeti
Kvöldverður: Veislu schnitzel og veglegt meðlæti
Kvöldhressing: Kex og mjólk

Dagskráin á heimkomudegi

Drengirnir hafa verið vaktir kl. 08:30 á morgnana en á brottfarardag (á morgun) er venja að gefa þeim ögn lengri svefn. Haninn mun því gala kl. 09:00, þá munu drengirnir fara í morgunmat, pakka í töskur, finna dótið sitt og halda svo út í frjálsan tíma og skipulagða hópleiki. Því næst verður haldið í hádegismat, í pizzu að hætti Vatnaskógar og síðan verða óskilamunir kynntir sem fundist hafa á víð og dreif um svæðið.

Rútan leggur af stað frá Vatnaskógi kl. 14:00 og áætluð koma á Holtaveg 28 er því kl. 15:00.

Þau ykkar sem hyggjast sækja drengina sína í Vatnaskóg eru beðin um að koma eigi síðar en kl. 13:30. Vinsamlegast látið vita ef þið ætlið að sækja ykkar drengi sjálf ef þeir eru skráðir í rútuna heim, svo töskurnar þeirra fari ekki upp í rúturnar. Þeir sem verða sóttir í Vatnaskóg munu koma farangri sínum fyrir framan matskálann. Endilega látið vita sem fyrst en símatíminn er eins og fyrr segir milli kl. 11:00-12:00 og síminn er 433 8959.

Allir óskilamunir sem ekki skila sér til drengjanna í Vatnaskógi munu fara á Holtaveg 28 í Reykjavík, félagsheimili KFUM og KFUK.

Þetta er síðasta færslan frá 5. flokki 2025. Við sem störfum í Vatnaskógi erum þakklát fyrir það traust sem foreldrar sína okkur með því að senda börn sín í sumarbúðir og tökum það traust alvarlega. Það er og metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi í tengslum við 5. flokk getur þú sent tölvupóst á arsaell@kfum.is eða haft samband við skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík, sími 588 8899.

Myndasíðan okkar er hér fyrir neðan.

Myndir úr Vatnaskógi

Með virðingu og þökk,
Pétur Sigurðsson, f.h. forstöðumanna

Deildu þessari frétt

Fara efst