Ævintýri og fjör
Það voru kátir og orkumiklir drengir sem mættu til okkar í Vatnaskóg í gær. Veðrið búið að leika við okkur og við erum búnir að nýta það til fulls í alls kyns ævintýri. Bátsferðir, veiði, frjálsar íþróttir, knattspyrna og ævintýri í skóginum fengu mesta athygli. Kvöldvakan gekk vel, margir voru að læra nýja söngva, á milli þess sem salurinn hló við skrítlur og látbragð leikfélags Villiandarinnar.
Það voru þreyttir sveinar sem lögðust á koddann sinn í gærkvöldi eftir skemmtilegan og langan fyrsta dag.
Dagurinn í dag
Dagskrá dagsins er stútfull að vanda. Bátarnir voru opnir og strákarnir fengu að taka þátt í svokölluðu „vatnafjöri“, þar sem þeir fengu að hoppa út í Eyravatn og vaða, þeir hugrökkustu fengu að fara um borð í mótorbátinn með bátaforingja. Eftir þennan hressa sundsprett voru heitu pottarnir opnaðir í íþróttahúsinu. Eftir kaffi tók við frjálsíþróttadagskrá: 60m hlaup, langstökk, kringlukast og kúluvarp. Ekki á hverjum degi sem maður fær að prufa slíkar íþróttir. Mótin í íþróttahúsinu eru í fullum gangi, þythokkí og pool á næsta leiti. Allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi.
Það er falleg kvöldsól hér í skóginum og við ætlum með drengina í ævintýri eftir kvöldvöku, þar sem við munum kveikja varðeld og gæða okkur á sykurpúðum og kexi áður en við höldum í háttinn.
Matseðill dagsins
Morgunverður: Morgunkorn
Hádegisverður: Spaghetti bolognese og hvítlauksbrauð
Síðdegishressing: Kaka og brauðmeti
Kvöldverður: Grillaðar pulsur
Kvöldhressing: Kex og mjólk
Símatími forstöðumanns er opinn milli kl. 11-12 á morgun.
Minnum á myndasíðuna okkar sem uppfærist yfir daginn:
Myndir úr Vatnaskógi
Með kveðju,
Pétur Sigurðsson, f.h. forstöðumanna.