Þegar við komum yfir hálsinn úr Hvalfirði inn í Svínadal í gær, keyrðum við inn í þokusúld sem lá yfir dalnum, þannig að ekki sást upp að fjallinu Kambi sem er hér rétt handan við Eyrarvatn. Þokunni létti fljótlega en því miður ekki svo að sæist til sólar. Örfáir drengir töldu sig hafa fengið mýflugnabit í gær, en ekkert hefur borið á lúsmýi fram til þessa.
Drengirnir komu sér fyrir, fengu kjötbollur í hádegismat og síðan tók við hefðbundin og fjölbreytt dagskrá á staðnum. Þythokkímót, skotbolti, knattspyrna, smíðaverkstæði, bátar, 60m hlaup, gönguferðir, „Ein króna“ og listakeppni voru á meðal skipulagðra dagskrárliða, auk þess sem drengirnir kynntu sér nánasta umhverfi og fundu upp á eigin verkefnum. En í lok hvers matartíma bjóðum við að jafnaði upp á 3-5 skipulagða dagskrárliði og hvetjum drengina jafnframt til að finna eigin ævintýri á svæðinu.
Dagurinn í gær endaði svo á kvöldvöku, þar sem drengirnir heyrðu framhaldssögu um Sinbað sæfara, sáu leikrit með leikhópnum Villiöndinni og heyrðu söguna um vini lama mannsins, sem notuðu róttækar aðferðir til að koma vini sínum til Jesú. En sagan fjallar ekki einvörðungu um lækningu heldur kúgunarvald trúarstofnanna, fyrirgefningu og tilraunir valdastétta (á tímum Jesú) til að brjóta niður kröfur um réttindi öllum til handa. Við fórum samt ekki mjög ítarlega í þau stef.
Í morgun var síðan morgunmatur kl. 9, morgunstund þar sem Biblían var kynnt sem trúarrit með sögum sem rúmlega helmingar mannkyns er mótaður af að hluta eða heild.
Framundan í dag er fjölbreytt dagskrá. Nú fyrir hádegismat er boðið upp á knattspyrnu, skákmót, langstökk, smíðaverkstæði og báta svo eitthvað sé talið til. Þá stendur líka til að opna EM-stofu í nýútbúnum samkomusal í Birkiskála rétt fyrir kl. 16:00 þar sem boðið verður upp á beina útsendingu frá leik Íslands og Sviss á EM.
Hægt er að sjá ljósmyndir frá 8. flokki á slóðinni: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157683821629314
Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.
Fræðsluinnlegg í lok fyrsta dags – Heimþrá
Í þessum flokki hefur aðeins borið á heimþrá, þó meira en 90% drengjanna njóti sín mjög vel. Því þykir mér mikilvægt að útskýra fyrir þeim foreldrum sem áhuga hafa hvaða hugmyndafræði og nálgun við aðhyllumst í þessum flokki í Vatnaskógi í tengslum við heimþrá. Því er hér smá innlegg.
Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki mikil áhrif nema á mjög lítinn hluta drengjanna er heimþrá mikilvæg tilfinning og getur snert okkur öll. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg og viðbrögð drengjanna eru oft eins og skyndikúrs í sorgarviðbrögðum. Þegar heimþrá nær tökum á drengjunum, geta þeir komið með ásakanir, lokað sig af, reiðst og notað samningatækni til að takast á við vanlíðan/sorgina. Á stundum fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) þó stundum birtist líkamlega vanlíðanin í hausverk eða stirðleika í liðum.
Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, enda fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir marga drengina í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar, sem þeir vita ekki hvernig er hægt að takast á við.
Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra og höfum samband strax og við teljum að tilfinningarnar hefti tækifæri drengjanna til að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi drengur þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum við að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að leyfa barninu að njóta sín.
Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi þessa vikuna er sú að hjálpa barninu að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðuninni að tækifærunum.
Við trúum því að þessi reynsla drengjanna, að láta ekki stjórnast af vanlíðan, þó þeir viðurkenni hana og gangist við henni, sé mikilvæg fyrir drengina og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi. Við skiljum þó líka að það getur gerst að aðstæður, upplifun og tilfinningar drengjanna séu þess eðlis að þeir eru einfaldlega ekki tilbúnir til að takast á við dvölina og þurfa að vera skemur en áætlað var í upphafi. Það gerist þó mjög sjaldan.