Dagana 2. – 7. júní verður svonefndur Gauraflokkur í Vatnaskógi. Það eru Skógarmenn KFUM sem í samstarfi við ADHD samtökin bjóða upp á dvöl í sumarbúðunum fyrir 10 – 12 ára drengi með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir. Hefðbundin dagskrá sumarbúðanna er í boði fyrir drengina og hentar hún vel drengjum með ADHD m.a. vegna þess hve dagskrárramminn er skýr og viðfangsefnin mörg og margvísleg. Mun fleiri starfsmenn eru í þessum flokki en hefðbundnum flokkum og er því auðveldara að mæta hverjum og einum á hans forsendum.
Umsóknum í Gauraflokk þarf að skila á sérstöku umsóknarformi sem hægt verður að nálgast hér á heimasíðunni og senda rafrænt til umsjónarmanna verkefnisins.
Byrjað verður að taka við umsóknum miðvikudaginn 25. mars.
Verkefni þetta er styrkt af Forvarnar- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar.