Það voru syfjaðir piltar sem mættu í morgunmatinn í gærmorgun. Enda eru menn aðeins farnir að lýjast eftir mikið prógramm undanfarna daga.
Dagurinn í gær var engin undantekning, þrátt fyrir hvassviðri hérna í Svínadalnum sem orsakaði það að við gátum ekki lánað bátana.
Svínadalsdeildin í fótboltanum kláraðist í gær með sigri 7. borðs. Glæsilegt hjá strákunum.
Foringjarnir brydduðu svo upp á ýmsu fyrir strákana. Borðtennismót, skákmót, innifótboltamót, kassabílarallý, hástökk, þrístökk, limbó er aðeins hluti af því sem hægt var að taka sér fyrir hendur í gær.
Benjamín foringi hefur líka verið duglegur að finna upp á hlutum sem eru frekar óvenjulegir, hann hefur sem dæmi verið að gera tilraunir á tímaskyni strákana með því að láta þá fá skeiðklukku. Þeir eiga svo að ýta á start á klukkunni með lokuð augun. Svo þegar þeir halda að tíu sekúndur séu liðnar eiga þeir að ýta á stopp. Þetta hefur vakið mikla lukku, sem sýnir okkur að það þarf nú oft ekki mikið til þess að skemmta stákunum.
Smíðaverkstæðið hefur líka verið vinsælt og greinilegt að það eru nokkrir drengjanna sem kunna sitthvað fyrir sér í höndunum.
Eftir kvöldmatinn opnuðum við fyrir heitupottana aftur. Nú mættu fleiri en daginn áður og létu sér líða vel.
Kvöldvakan hófst svo að venju kl. 20:30 og ró var komin á um 23:00. Það er gaman að fylgjast með því hversu miklu mun fljótari margir eru að sofna núna þegar líður á flokkinn.
Talsvert er komið inn af
myndum frá því í gær. Það koma svo fleiri myndir í dag.
kv, Árni Geir