Síðasti heili dagurinn runninn upp. Já þetta er fljótt að líða. Foreldrar! Þið eigið semsagt von á strákunum ykkar heim á morgun. Bara svona til þess að hafa þetta á hreinu:o) Rúturnar ættu að vera í bænum svona um 21:00.

Dagurinn í dag hefur gengið vel í alla staði eins og hinir sem á undan hafa gengið. Nóg að gera frá morgni til kvölds. Vil nú bara stikla á því helsta þar sem þið ættuð nú að vera orðin nokkuð fróð um hvernig dagarnir ganga fyrir sig hérna hjá okkur. Þ.e. ef þið hafið þá náð að lesa pistlana mína hingað til.
Það sem stendur uppúr yfir daginn er fjallgangan sem við fórum. 40 strákar ásamt 4 foringjum lögðu af stað upp kl. eitt í dag. Ferðinni var heitið upp á fjallið sem gnæfir yfir okkur hérna í Vatnaskógi. Við köllum það Kamb, en mér skilst að það nafn finnist nú hvergi skráð nema hér í dagbækur í Vatnaskógi. En hvað um það, þetta er hluti af Skarðsheiðinni og er um 1000 m. hátt. Við þrömmuðum af stað með nesti og nýja skó….ja þetta með nýju skóna átti nú eiginlega ekki við okkur. En til þess að gera langa sögu stutta þá höfðum við það upp á topp og niður aftur. En það tók okkur aðeins lengri tíma en við áætluðum. Þeir síðustu skiluðu sér aftur í hús kl. 18:00. Þið foreldrar sem eigið strák sem lagði á fjallið megið vera virkilega stollt. Þetta er ansi mikið afrek fyrir marga.

Eftir kvöldmat spiluðum við foringjarnir knattspyrnuleik við úrval drengja sem valdir hafa verið í Draumaliðið og Pressuna. Við spiluðum sitthvorn hálfleikinn við hvort lið. Það er náttúrulega ekki að spyrja að því, en við foringjarnir unnum. Þurftum að vísu að hafa vel fyrir því, þar sem margir góðir og efnilegir knattspyrnu menn eru hérna á svæðinu. Draumaliðið og Pressuliðið spila svo stjörnuleik á morgun.

Á kvöldvökunni var hæfileika sýning, þar sem strákunum bauðst að hafa atriði. Þetta vekur alltaf mikla lukku og skemmtu þeir sér vel yfir þessu. Ég verð því miður að játa það á mig að ég steingleymdi að taka myndir af þessu í kvöld. Biðst afsökunar á því.
Bíblíuspurningakeppnin fór fram í kvöld líka og voru það 2. og 4. borð sem öttu kappi í úrslitum. Það var annað borð sem stóð uppi sem sigurvegari í kvöld. Glæsilegur árangur þar á ferðinni.

Kvöldvakan var í lengri kanntinum hjá okkur í kvöld og ró fyrst að komast á núna hjá okkur en klukkan er 23:30

Myndir frá því í dag.

kv, Árni Geir