Veðrið lék við okkur Skógarmenn hér í gær, sólin kíkti fram úr skýjunum og vatnið var alveg kyrrt.
Við hófum morgundagskrána á því að fara í hermannaleik, það er klemmuleikur þar sem drengirnir berjast um klemmur á milli liða. Leikurinn er fastur liður í flokki í Vatnaskógi og margir drengir sem biðu spenntir eftir honum. Sumir settu meiri segja svartan lit í andlitið á sér til að koma sér í réttu stemninguna.
Vegna verðurs var ekki annað hægt en að bregða á leik á vatninu. Eftir hádegismat sem að voru kjötbollur var því hafist handa við að draga drengina á tuðru eftir vatninu. Þetta er talsvert verkefni svo nær allur dagurinn fór í að draga alla þá drengi sem höfðu áhuga. Það er svo sannarlega ótrúlegt stuð að fara á tuðruna og drengirnir skemmtu sér mjög vel. Sumir skelltu sér meira segja út í eftir ferðina eins og sjá má myndunum. Þrátt fyrir að vatnið geti verið kalt þá létu þeir það ekki á sig fá og lögðust í heita karið við Bátaskýlið eftir salíbununa.
Á meðan var hins vegar ýmislegt í boði. Þar á meðal var boðið upp á hið víðfræga Víðavangshlaup þar sem hlaupið er hringinn í kringum vatnið, rúma fjóra kílómetra. Þetta er sannkallað hindrunarhlaup þar sem hlaupa þarf yfir ósa á tveimur stöðum og við hlið kríuvarps. 30 drengir tóku þátt í hlaupinu og skemmtu sér hið besta. Eftir kvöldmat var hins vegar slakað aðeins á og boðið upp á rólegri dagskrá í íþróttahúsinu í borðtennis og fleiru.
Kvöldkaffi var kl. 20:30, boðið er upp á kex og mjólk annað hvern dag og ávexti hinn. Þar á eftir farið á kvöldvöku þar sem er sungið, foringjarnir breðga á leik og framhaldssagan lesin. Kvöldvakan endar svo á hugleiðingu út frá Guðs orði. Eftir kvöldvöku er svo boðið upp á Kapellustund fyrir þá sem það vilja. Drengirnir voru sofnaðir um 23:00, dauðþreyttir eftir átök dagsins.
Myndir frá gærdeginum má sjá hér:

http://www.kfum.is/myndir/?g2_itemId=70755
Í dag er einnig mjög gott veður, sólin skín og logn, eftir hádegi er stefnt á ferð hér út fyrir svæðið og meiri útiveru er líður á daginn.
Kveðja úr Vatnaskógi
Þráinn