Það er svo sannarlega líf og fjör í Vatnaskógi! Í gær var gott veður og öflug dagskrá. Drengirnir voru vaktir klukkan 8.30 og fóru í morgunmat og eftir morgunmat var fánahylling. Eftir fánahyllingu var morgunstund í Gamla skála, en hver dagur í Vatnaskógi hefst á morgunstund þar sem farið er í gegnum þema dagsins að henni lokinni fara drengirnir á biblíulestur með foringjum sínum og því næst hefst frjáls dagskrá drengjanna. Í dag var margt í boði m.a. bátar, knattspyrna, billjardmót og skutlukeppni svo fátt eitt sé nefnt. Hoppukastalarnir voru opnir í allan dag og hoppuðu sumir drengjanna frá morgni til kvölds. Margir drengjanna fóru í göngu með foringja um skóginn og klifu klett sem nefnist Álfaborgir. Í hádegismat var boðið upp á medisterpylsu með kartöflumús, bökuðum baunum og fersku salati. Í kaffinu var hjónabandssæla, rice krispies kaka og nýbakað brauð, í kvöldmat var boðið upp á dýrindis ávaxtasúrmjólk og smurt brauð og í kvöldkaffinu fengu drengirnir ávexti. Deginum lauk með kvöldvöku þar sem sýnd voru töfrabrögð, sagaðar sögur og flutt hugleiðing út frá Guðs Orði. Mikil gleði er í hópnum og einstaklega gefandi að umgangast drengina. Ró var komin á um kl. 22.30.
Í dag voru drengirnir vaktir klukkan 8.30 við fagurt gítarspil, hitinn í dag er um 15°C og það er logn úti. Margt spennandi er fyrirhugað í dag og verða fluttar fréttir af því á morgun.
Myndir eru frá degi 2 eru hér: http://www.kfum.is/myndir/?g2_itemId=65310&g2_page=1