Lognið sem við höfum verið að bíða eftir kom loks í gær. Það var mikil gleði yfir því að hægt væri að opna bátana og satt best að segja fór hver og einn einasti drengur allavega einu sinni út á bát og margir oftar en það. Einnig var leyft að vaða og margir skelltu sér því úti og hlupu eftir þrautabraut við bryggjuna. Já það er svo sannarlega skemmtilegt að mega bleyta sig. Veðrið lék sem sagt við okkur þó hitinn hefði gjarnan mátt vera örlítið hærri. En við látum það ekki á okkur fá og vatnið var því óspart nýtt. Eftir volkið í vatninu þá skelltu margir sér í heitt kar sem er staðsett við bátaskýlið.
Þótt bátarnir hafa sannarlega verið vinsælastir þá var einnig boðið upp á spennandi skógargönguferð þar sem dýralífið í skóginum var skoðað og endað var upp við kletta sem hægt er að klifra í með leiðsögn foringja. Mörgum finnst spennandi að fá að skoða náttúruna enda ekki alltaf sem manni gefst tækifæri til þess. Íþróttamótin héldu einnig áfram sem og knattspyrnan, í gær var einnig kennt blak og margir sem vildu fá að læra þá íþrótt. Það var því sannarlega annasamur dagur í Vatnaskógi í gær. Í kvöldmat var pylsupartí og sporðrenndu drengirnir grilluðum pylsum.
Á kvöldvöku var svo hæfileikasýning og nokkrir drengir sýndu hæfileika sína, sögðu branda, dönsuðu og fleira. Það var virkilega gaman að sjá þá miklu hæfileika sem drengirnir bera og allir skemmtu sér vel. Ró var komin á um 22:45.

Myndir frá gærdeginum má sjá hér
Í dag er veðrið svipað, blankalogn en meiri hiti en í gær. Það er því stefnt á ýmsa útiveru og væntanlega verður vatnið nýtt til hins ýtrasta.
Kveðja úr Vatnaskógi.
Þráinn