Það blés vel á okkur hér í Skóginum í gær og hitastigið heldur lægra en við erum vanir svona á sumardögum. En auðvelt erað klæða sig eftir veðri og það gerðu drengirnir enda skemmtileg dagskrá útivið. Eftir hádegismat var farið í hinn sívinsæla hermannaleik þar sem Oddverjar og Haukdælir etja kappi út í Oddakoti. Þar er barist um líf sem eru táknuð með klemmum á hægri handlegg. Í lokin kom líka í ljós að falinn fjársjóð var að finna einhverstaðar í skóginum og leitu liðin að honum. Lúðrablásturinn í bardaganum vakti líka tvö skógarskrímsli upp af værum blundi og komu þau alla leið niður í Oddakot til ná sér í mat. En skrímslin voru snarlega stoppuð af drengjunum enda stig í boði fyrir að ná skógarskrímslinu. Leikurinn var mjög spennandi og lauk með naumum sigri Oddverja.
Eftir kaffi var svo brennómót sem er nú ekki algengur dagskrárviðburður hér í Vatnaskógi. Borðin kepptu kepptu á hraðmóti og skemmtu sér allir mjög vel og flestir drengirnir tóku þátt í einhverjum leikjanna. Á sama tíma var einnig hægt að hlaupa 400 m hlaup, fara á smíðaverkstæðið eða leika sér í íþróttahúsinu. Dagskráinn hélt svo áfram eftir kvöldmat og þá voru heitu pottarnir opnir og alltaf njóta þeir mikilla vinsælda. Einnig fór fram hástökk og úrslitaleikir í bikarkeppninni í knattspyrnu.
Kvöldvökunni lauk um 22 og voru drengirnir sofnaðir um 22:30, þreyttir eftir viðburðarríkan og skemmtilegan dag.
Myndir frá gærdeginum má sjá hér.
Í dag er veðrið hins vegar mun betra, hægur vindur og því eru bátarnir opnir. Þessu hafa drengirnir beðið eftir og hugur þeirra því á leið út á vatn.
Kveðja úr Vatnaskógi
Þráinn