Nú er skemmtileg vika á enda komin. Það voru spenntar og heimavanar stúlkur sem komu með rútunni á þriðjudaginn og ennþá spenntari starfsstúlkur sem biðu þeirra og hlökkuðu til að fá að taka þátt í gleðinni með stúlkunum.
Margt er nú að baki og má þar meðal annars nefna gönguferð, hárgreiðslu- og förðunarkeppni, íþróttadag, náttfatapartý, kvöldvöku og diskótek í Vatnaskógi, sund í Borgarnesi, Jesúgöngu, Ölver’s got talent, næturleik, flóttamannaleik, misréttisdag, biblíulestra og allt hitt sem tileyrir sönnum Ölversanda.
Kannski er vert að útskýra aðeins hvað felst í misréttisdegi. Biblíulestur var tileinkaður þemanu ,,elskaðu náungann“ og útfrá því var fjallað um HIV/Aids og þann vanda sem heiminum stafar af völdum sjúkdómsins. Eftir hádegismat var stúlkunum skipt í lönd og áttu þær nú að vera borgarar þeirra landa sem þær drógu:
Ísland = 2 stúlkur
Pólland = 5 stúlkur
Palestína = 8 stúlkur
Úganda = 10 stúlkur

Verkefnið eftir hádegismat var að hverju landi var úthlutaður staður þar sem þær áttu að útbúa híbýli, dæmigerð fyrir sitt land. Auk þess áttu þær að útbúa fána og upplýsingaspjald um landið sitt. Þetta tókst alveg einstaklega vel, híbýlin voru frábær og landakynningarnar ígrundaðar og flottar.
Eftir kaffi var farið í verslunarleik. Þá áttu löndin enn að vinna saman að því að framleiða vörur, sem þau síðan áttu að selja starfsfólki og fá þannig stig fyrir. Líkt og er í raunveruleikanum, þá var hráefni, tækjum og tólum mjög misskipt á hópana og olli það strax gremju. Sumar tilkynntu það strax að þær ætluðu ekki að taka þátt í ,,þessum leiðinlega leik. Þegar stúlkurnar voru komnar upp á lag með það að skipta hráefni sín á milli þá fór leikurinn í gang fyrir alvöru. Flestar tóku þátt, en ekki allar voru sáttar.
Að leik loknum var ljóst að Ísland hafði sigrað . Sigurlaunin voru risastór skál, stútfull af sælgæti og gúmmelaði sem ,,Íslendingarnir“ fengu að gæða sér á. Þá urðu hinar stúlkurnar ævareiðar og kvörtuðu undan misskiptingu, svindli og öðru. Var þá talað um við þær að svona eru hlutirnir í heiminum, sum lönd eiga svo mikið af mat að þeirra stærsta heilsufarsvandamál er offita á meðan flestir í heiminum lifa undir fátæktarmörkum og þeirra helsta heilsufarsvandamál er vannæring. Þessu lauk svo á þeim nótum að sigurliðið bauð hinum stúlkunum að borða sælgætið með sér.
Kvöldmaturinn vakti litla lukku meðal stúlknanna. Hann var misskiptur og fengu löndin misgirnilegan mat við lítinn fögnuð viðstaddra og fóru margar stúlknanna reiðar og sárar út úr matartímanum (þó er mikilvægt að komi fram að í boði var nægur matur fyrir alla og enginn hefði þurft að fara svangur frá borðinu, margar stúlkurnar hins vegar völdu það að borða ekki neitt því það sem þeim var boðið ,,var svo ógeðslegt“ ).
Á kvöldvökunni var deginum lokað með því að við ræddum almennt um fátækt og hvaða áhrif þessi dagur hafði á okkur. Bent var á að stúlkunum þótti sárt að fá ekki sama mat, þeim þótti sárt að fá ekki allar sömu tækifæri í leikjum dagsins. Var þeim þá enn á ný bent á að svona er heimurinn því miður, sumir synda í gnægtum og hafa langtum meira en þeir þurfa á að halda á meðan aðrir þurfa að berjast í bökkum og eiga kannski ekki til hnífs og skeiðar. Passað var upp á að engin stúlka væri lengur reið, leið eða sár, að allar skyldu þær tilgang dagsins og að þær hefðu mögulega lært eitthvað á þessu þótt þeim hefði þótt við ósanngjarnar og leiðinlegar.
Þegar komið var að kvöldkaffi höfðu eldhúsfreyjurnar undirbúið notalegt kaffihús í matsalnum þar sem boðið var upp á kökur af ýmsu tagi og heita rétti, bollur og salöt. Það fór því engin stúlka svöng í rúmið.
Eftir kvöldkaffi buðum við svo upp á kósýstund og videogláp í kvöldvökusalnum.

Takk fyrir frábæra viku,
Lella forstöðukona