Þá er runinn upp veisludagur í Vatnaskógi og viðburðarríkri viku að ljúka. Drengirnir halda heim á leið í kvöld. En dagurinn er í gær var sannarlega skemmtilegur en veðrið lék við okkur og því var vatnið notað óspart. Margir drengir fóru út á báta eða að vaða og einhverjir reyndu fyrir sér í veiði þó enginn fiskur hafi komið í land að þessu sinni. Eftir hádegismat var boðið upp á gönguferð niður að Eyrarfossi og um 10 drengir fóru með og skoðuðu þennan skemmtilega foss. Þeir voru komnir til baka hingað á staðinn í kaffinu.
Bátarnir voru áfram opnir er leið á daginn og einnig var keppt í 1500m hlaupi auk íþróttahúsins en þar er alltaf nóg að gera. Um kvöldið fór svo fram foringjaleikurinn í knattspyrnu þar sem foringjar öttu kappi við úrvalslið drengja. Draumaliðið keppti fyrri hálfleik en stjörnuliðið þann seinni. Leikurinn var æsispennandi en lauk með sigri foringja eftir frábæra frammistöðu drengjana.
Á kvöldvökunni var svo keppt í biblíuspurniningakeppni og var hún spennandi og skemmtileg. Drengirnir voru sofnaðir um 22:45.
Nú í dag er hins vegar veisludagur og margt sem er framundan. Margir drengjanna eru að hlaupa í brekkuhlaupinu nú þegar þessi orð eru skrifuð og ætla einning að taka þátt í keppni um vítakónginn. Margt annað er á dagskránni er líður á daginn. Veislukvöldverður hefst svo kl. 17 og þar á eftir er farið á kvöldvöku. Rúturnar verða komnar til Reykjavíkur á Holtaveg 28 kl. 21:00. Þeir foreldar sem ætla að sækja drenginn sinn hingað í Vatnaskóg eru beðnir um að koma ekki seinna en 20:00. Einnig biðjum við foreldra um að láta vita ef þau ætla að sækja drenginn hingað, ef þau hafa ekki gert það þegar, svo taska viðkomandi drengs fari ekki í rútuna. Það er skemmtileg vika sem nú er á enda og ánægðir drengir sem halda heim á leið en einnig spenntir að hitta foreldra sína eftir viðurburðarríka sumarbúðadvöl.
Myndir frá deginum í gær og í dag verða settar inn á síðuna í kvöld.
Við í Vatnaskógi þökkum drengjunum fyrir ánægjulega samveru.
Þráinn Haraldsson, forstöðumaður.