Um helgina fóru í Vatnaskógi nokkrir strákar úr Skógarvinum sem er deild í KFUM og KFUK. Farið var upp í Vatnaskóg á föstudag og komið heim á laugardeginum. Þegar komið var í Vatnaskóg var komið sér fyrir og svo steiktir nokkrir hamborgarar og kartöflubátar, nokkrir sporðrenndu heilum þremur borgurum.
Það var frábært veður um kvöldið og algjört logn. Við fórum því niður að vatni og kveiktum bál og poppuðum okkur poppkorn sem gekk nú reyndar misvel, þurftum nokkrar tilraunir áður en við náðum að gera meira en bara brenna poppmaísinn.
Þegar við vöknuðum á laugardeginum voru mættir 20 manns sem komnir voru í vinnuflokk í Vatnaskógi, hluti af þeim fór í að taka niður loftið í Kapellunni og svo að einangra loftið, hinn hlutinn af vinnuflokknum var í nýja húsinu að setja upp gifsplötur á veggina. Við fengum okkar hafragraut og brauð í morgunmat og fórum svo í íþróttahúsið að leika okkur. Eftir hádegismat sem var steiktur fiskur, fórum við í ratleik, strákarnir voru nú ekkert spenntir fyrir því, vildu frekar horfa á bíómynd. Ratleikurinn var þó skemmtilegri en þeir áttu von á því við prófuðum að nota GPS tæki sem búið var að merkja inn á fjórar stöðvar. Á hverri stöð átti að leysa ákveðið verkefni og halda svo áfram á næstu stöð. Fyrsta verkefnið var lítill GPS leikur sem er hugsaður til að átta sig á virkni GPS tækisins. Á næstu stöð átti að kveikja á sprittkerti og setja það inn í flösku með aðeins glerflösku, 6" nagla, sprittkerti og eldspýtustokk að vopni. Á þriðju stöðinni átti að búa til burðarrúm úr því sem þeir fundu í bakpokanum sem þeir báru, tveir regnstakkar og tvö kústsköft. Þeir áttu að bera einn að næstu stöð, það gekk vel eða þar til kústskaftið brotnaði. Fjórða stöðin gekk út á það að binda saman lappirnar eins og sjá má á myndinni og lappa svo saman að næstu stöð sem var frábrugðin þeim fyrri því að henni fengu þeir bara gefin upp hnitin og þurfti að finna punktinn á GPS tækinu. Þegar kom að síðustu stöðinni þurftu þeir að finna verðlaun sem þeir fengu fyrir ratleikinn, að lokum fundu þeir eina öskju á mann með biblíuversum, kallast „Orð Guðs til þín“.
Allir fóru hressir heim að lokum skemmtilegri Vatnaskógarferð.
Myndir frá ferðinni.
Myndirnar tók Hjalti Þór Davíðsson.