Sigursteinn Hersveinsson heiðursfélagi KFUM og KFUK á Íslandi lést fimmtudaginn 27. maí síðastliðinn, 81 árs að aldri.
Sigursteinn kynntist ungur starfi KFUM í Reykjavík og sumarbúðum félagsins í Vatnaskógi og Kaldárseli. Hann var í hópi þeirra drengja sem fyrstir sóttu sveitarfundi KFUM í Laugarnesi hjá Friðriki Ólafssyni veturinn 1941 til 1942. Fáum misserum síðar var hann orðinn einn af leiðtogum starfsins þar en haustið 1950 tók hann að sér að hefja sunnudagaskólastarf í Kópavogi að beiðni prestanna sem þjónuðu Kópavogi þá . Af einstakri elju og trúfesti var hann upp frá því í forsvari sunnudagaskólastarfsins í Kópavogi í rúma þrjá áratugi. Eftir að Sigursteinn stofnaði bæði unglingadeild og yngri deild KFUM í Kópavogi á árunum 1962 og 1964 kom hann í áraraðir þrisvar í viku til að leiða drengjastarfið í KFUM og sunnudagaskólann. Starfið var á fyrstu árunum lengst af í vesturbæ Kópavogs en færðist smám saman austar í bæinn eftir því sem bærinn stækkaði. Á árunum 1972-1974 reistu KFUM og KFUK loks sitt eigið félagsheimili við Lyngheiði 21 í Kópavogi og var það ekki síst elju og atorku Sigursteins að þakka.
Sigursteinn tók einnig virkan þátt í starfi aðaldeildar KFUM til hinstu stundar og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í þágu félagsins. Hann lagði t.d. mikið af mörkum til samstarfsnefnda sveitarstjóra KFUM á sínum tíma og var virkur í starfi Kristniboðsflokks KFUM og Éljagangs líkt og margir þeirra sem áttu rætur að rekja til starfs KFUM í Laugarnesi. Sigursteinn var einstaklega samviskusamur og vandvirkur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og lunderni hans mótað af einlægri trú og kærleika. Eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingibjörgu Kolbeinsdóttur, kynntist hann fyrst í Kaldárseli. Henni og öðrum ástvinum Sigursteins vottum við dýpstu samúð um leið og við þökkum Guði fyrir blessunarríkt líf og starf Sigursteins.

Útför Sigursteins fer fram þriðjudaginn 8. júní kl. 15 frá Hallgrímskirkju.

Þórarinn Björnsson