Það var fjörugur og skemmtilegur hópur drengja sem kom hingað í Vatnaskóg í gær. Staðurinn skartaði sínu fegursta, hægur vindur og sólin gægðist fram undan skýjunum. Eftir að hafa komið sér fyrir fengu drengirnir hádegismat sem að þessu sinni var steiktur fiskur sem var borðaður með bestu lyst. Eftir hádegismat tók dagskrá við og undu drengirnir sér vel í bátunum, inn í íþróttahúsi, sumir spiluðu knattspyrnu eða köstuðu kúlu. Enn aðrir tóku svo þátt í aflraunkeppni Vatnaskógar, Vatnaskógarvíkingnum.
Þannig gekk dagurinn sem endaði á kvöldvöku, þar sem var sungið, sýnt leikrit og drengirnir heyrðu fyrsta partinn af framhaldssögunni. Eftir kvöldvökuna var farið að sofa og ró var komin á um kl. 23:40. Nóttin gekk vel og drengirnir sváfu vel.
Í morgun var svo vakið kl. 08:30 og fannst sumum drengjanna það fullsnemmt! Í dag blæs úr norðaustri en nokkuð hlýtt er.
Hér má sjá nokkrar myndir frá gærdeginum.
Ég minni foreldra á símatíma sem er milli kl. 11 og 12, ef þið viljið spyrjast fyrir um drenginn ykkar, hikið þá ekki við að hafa samband.
Nánari fréttir og fleiri myndir á morgun.
Vatnaskógarkveðjur
Þráinn Haraldsson, forstöðumaður.