Það hefur svo sannarlega verið líf og fjör hér í Vatnaskógi enda hressir strákar sem dvelja hér. Í gær blés á okkur svo ekki var hægt að opna báta en þeir sem voru hugaðir fengu að reyna sig í vindinum. Einnig var hægt að vaða og margir drengir létu taka tímann á sér, hversu lengi þeir væri að hlaupa út að skeri sem stendur rétt út í vatni. Þetta var að sjálfsögðu mjög spennandi og gaman að láta reyna á kraftana.
Í hádegismat í gær var boðið upp á kjúklingaleggi og var þeim rennt niður af bestu lyst. Frjálsíþróttamótið hélt áfram sem og knattspyrnan og í íþróttahúsinu er alltaf nóg um að vera.
Um kvöldið var svo komið að viðburði sem að margir drengjanna biðu spenntir eftir en það er útilegan. Þeir sem vildu var boðið upp á að sofa úti undir berum himni. 30 drengir tóku því tilboði og var lagt af stað eftir kvöldvöku. Farið var upp í skóg í rjóður sem við köllum Skógarkirkju. Það var kveiktur eldur og sungið saman og farið í leiki. Drengirnir komu svo til baka í morgunmat í morgun, sælir og glaðir, þó grasbali sé kannski ekki þægilegasta svefnstæðið.
Nú í morgun er lognið sem við höfum beðið eftir loks komið, bátarnir eru opnir og margir komnir út á vatn.
Myndir frá gærdeginum má sjá hér.
Vatnaskógarkveðja
Þráinn Haraldsson, forstöðumaður.