Drengirnir hér í Vatnaskógi una sér vel. Veðrið hefur að vísu ekki verið okkur hagstætt, mikið hvassviðri. Það kemur samt ekki í veg fyrir mjög góðan anda hjá strákunum í flokknum. Lítið um heimþrá sem er hið besta mál. Enda eru þessi drengir margir hverjir vanir íþróttaferðum.
Að venju er nóg að gera hér í Vatnaskógi. Við byrjuðum daginn í gær á því að hylla íslenska fánann, þessa hefð höldum við fast í. Ástæðan er einfaldlega sú að kenna strákunum að bera virðingu fyrir íslenska fánanum og kenna þeim að umgangast hann.
Eftir morgunmat og morgunstund þar sem við kennum þeim að fletta upp í Nýja Testamenntinu, fór dagskráin á fullt. Borðtennismótið var klárað og næst tók skákmót við og er það enn í gangi.
Strákarnir borðuðu vel í hádeginu. Boðið var upp á fisk í karrý sem mæltist vel fyrir hjá þeim.
Smíðastofan er sívinsæl og eru margir listamenn í flokknum og einmit margir sem hafa nýtt sér þann samastað vegna veðurs.
Eftir kaffið var haldið áfram með Svínadalsdeildina í fótbolta, ásamt fullri dagskrá í öðrum leiktækjum. Einnig var boðið upp á þrístökk án atrennu og byrjað á hástökki, ekki vildi betur til en hástöksráin bilaði þannig að við þurfum að klára það seinna.
Það er mikill knattspyrnuáhugi hjá drengjunum hérna. Við tókum þessvegna ákvörðun um að sýna HM leikina á breiðtjaldi. Í gær skapaðist mikil stemning í salnum þar sem bæði lið voru hvött til dáða. Það voru ívið fleiri sem studdu Spánverja og því sáttir við úrslitin.
Gríðarleg stemmning var svo á kvöldvökunni að venju. Ró var komin á um milli kl. 23:00 og 23:30
Fleiri myndir með því að smella hér.
Árni Geir