Drengirnir sem dvelja hérna í Vatnaskógi núna eru mjög meðfærilegir og láta vel að stjórn. Þeir eru yfirleitt fljótir að þagna þegar um það er beðið, fljótir að koma sér í svefn á kvöldin og ganga bara alveg ágætlega vel um. Auðvitað koma upp smá ósætti inn á milli, en það leysist fljótt og örugglega.
Það eina sem gerir okkur erfitt fyrir er veðrið. Norðaustan 20 m/s
Í gær var skýjað og mjög hvasst allan daginn nánast. Sólin kíkti aðeins á okkur í lok dags. Þar sem strákarnir hafa lítið sem ekkert getað farið út á bát, var ákveðið að fara með þá sem vildu út á gúmmibátunum okkar. Þetta vakti töluverða lukku hjá þeim og rúmlega 50 strákar fengu sér bunu. Að sjálfsögðu allir í björgunarvestum. Og ekki þurfti landhelgisgæslan að bjarga neinum á Eyrarvatni.
Að öðru leiti var hefðbundin dagskrá allan daginn. Fótbolti, frjálsar, billiard, þythokkí, bátar, smíðaverkstæðið, borðtennis, fótboltaspil, íþróttasalurinn, kúluspil, skák og bókasafnið svo eitthvað sé nefnt. Sumir strákarnir nota skóginn líka til að dunda sér.
Góð þátttaka er í Listakeppninni, en þar getur þú skilað inn teikningum, trélistaverkum eða því sem hverjum og einum dettur í hug.
Eftir kvöldmat voru heitu pottarnir opnaðir. Það er gott að geta slakað á í lok dagsins.
Kvöldvakan var á sínum stað, þar sem foringjarnir slógu á létta strengi. Framhaldsagan sem byrjað var á fyrsta kvöldið, var líka á sínum stað. Sagan heitir Knattspyrnudrengurinn. Grafaþögn ríkir á meðan sagan er sögð sem bendir til þess að þeir hafi gaman af.
30 strákar fóru í Kapelluna eftir kvöldvökuna og áttu góða stund þar fyrir svefninn.
Ró var komin á 23:00
Yfir 100 myndir komnar inn frá því í gær og fyrradag.
Smella hér.
Árni Geir
Forstöðumaður