Það rættist úr veðrinu í gær, sólin yljaði okkur gerði okkur auðveldara fyrir…merkilegt að byrja alltaf að tala um veðrið…en við erum jú Íslendingar og þetta er okkar helsta umræðuefni hvar sem við komum.

Sökum hvassviðris var því miður ekki hægt að lána bátana í gær enn einn daginn. En strákarnir láta það ekki á sig fá. Smíðaverkstæðið hefur náð miklum vinsældum og er gaman að sjá hvað þeir ná að búa sér til.

Foringjarnir eru góðir að brydda upp á ýmsum hlutum. Keppni í „Frúin í hamborg“, borðtenniskúlublæstri, bandýmót, sokkafótbolti, skotbolti svo eitthvað sé nefnt.

Nú eru úrslitin ráðin í Svínadalsdeildinni í knattspyrnu. 6. borð stóð uppi sem sigurvegari enda unnu þeir alla leikina sína. Puma bikarinn fer svo fram í dag.
Einnig var keppt í 800 metra hlaupi, spjótkasti og kassabílarallýi.

Einhverjir fóru svo í ævintýragönguferð upp að Álfaborgum sem eru hér innan svæðis. Í borgunum er búið að koma fyrir kaðli þannig að hægt er að klifra svolítið, þó að ekki séu klettarnir háir.
Svo eru margir sem einfaldlega drífa sig inn í skóginn og dunda sér þar.

Við mæltumst til þess að þeir sem ekki voru búnir að baða sig frá því að þeir komu, færu nú a.m.k. í sturtu. Tilmælunum var vel tekið og það ættu allir að vera búnir að þrífa sig allavegana einu sinni síðan þeir komu….ég veit að þetta hljómar kanski ekki vel í eyru sumra mæðra…en strákarnir eru jú í sumarbúðum…

Kvöldvakan var fjörug og skemmtileg, mikið sungið og trallað, foringjarnir unnu leiksigur og voru hreinlega hylltir sem stjörnur það sem eftir var kvöldsins. ( Þetta er nú kannski frekar óskhyggja en raunveruleiki, en gaman engu að síður)
Ró var svo komin á rétt upp um 23:15

Fleiri myndir koma seinna í dag inn á síðuna!

Ekki meira að sinni,
Árni Geir