Hér koma síðustu skrif mín að þessu sinni. Þar sem þetta er jú síðasti dagurinn í flokknum.
Allt hefur gengið vel fyrir sig. Það er greinilegt að flestir ef ekki allir þeir drengir sem hafa dvalið hér eru í mjög góðu jafnvægi. Auðvelt að tala við þá og stilla til friðar ef eitthvað kemur upp á. Menn fljótir að viðurkenna mistökin og biðjast fyrirgefningar.

Í gær var bryddað upp á ýmsu.
Puma bikarinn var spilaður og þar varð 7. borð hlutskarpast. Brekkuhlaup og Viðavangshlaup fóru fram þar sem veður var mjög hagstætt til víðavangshlaupa. Mjög góð þátttaka var í víðavangshlaupinu, en þá hlaupa drengirnir í kringum vatnið, um það bil 4,2 km.
Bátarnir og vatnið gengdu miklu hlutverki í gær. Mjög margir nýttu sér bátana en aðrir stukku hreinlega út í vatnið þó kalt væri.

Eftir kvöldmat var að sjálfsögðu horft á úrslitaleikinn í HM. Flestir voru á bandi Spánverja og brutust út mikil fagnaðarlæti þegar Iniesta skoraði sigurmarkið.

Á kvöldvökunni fór fram Biblíuspurningakeppnin og þar sigraði 7. borð með glæsibrag.
Ró var komin á um 23:30

Í morgun var vakið kl. 8:30 að venju. Siðasti dagurinn runninn upp.

Nú er unnið að því að klára síðustu mótin og svo fá þeir Pítsu og Pepsí í hádegismat.

Eftir hádegi verður knattspyrnuleikur á milli Landsliðsins og Stjörnuliðsins. (Sömu lið og spiluðu við foringjana á laugardaginn) .

Svo er það að koma strákunum í það að pakka dótinu sínu og reyna að koma í veg fyrir að þeir gleymi einhverju. Það gæti þó verið þrautin þyngri, við vitum jú hvernig strákar eru. Eftir kaffi verður svo loka stundin.
Þar verður að sjálfsögðu opnað fyrir Sjónvarp Lindarrrjóður. En þar eru sýnd myndbrot úr flokknum ásamt bröndurum sem starfsmenn hafa sett saman og tekið upp. Þetta vekur gífurlega lukku.
Myndir frá deginum í gær
eru hér, en myndir frá deginum í dag koma inn í kvöld.

Rútan ætti að vera komin í kringum 18:00 að Holtavegi 28

Takk fyrir samveruna strákar,
Árni Geir
Forstöðumaður.