Vatnaskógi, þriðjudaginn 20. júlí 2010.

Áttundi flokkur sumarsins 2010 í Vatnaskógi mætti á svæðið rétt fyrir kl. hálftólf í dag. Það voru spenntir og eftirvæntingarfullir drengir sem komu úr rútunum tveimur og þustu inn í matsalinn. Þar var sest við sjö borð og sitja 10-14 drengir á hverju borði. Samtals eru drengirnir tæplega 90 talsins. Eftir upplestur, kynningu o.fl. var borðaður hádegismatur sem stúlkurnar úr eldhúsinu töfruðu fram. Dýrindis kjúklingaleggir með hrísgrjónum, sósu og salati. Eftir hádegismat fóru drengirnir og komu sér fyrir í skálunum sínum. 1., 4. og 6. borð gista í Gamla skála en 2., 3., 5. og 7. borð gista í Birkiskála. Eftir það var frjáls tími og margir dagskrárliðir voru í boði, m.a. frjáls knattspyrna, bátar og létt göngu- og skoðunarferð. Í kaffinu var dýrindis súkkulaðikaka og brauðbolla og við sungum afmælissönginn fyrir Hermann Orra sem varð 11 ára. Þvílík forréttindi að fá að njóta afmælisins í Vatnaskógi. Eftir kaffið var ýmis frjáls dagskrá í boði en rúmlega 30 drengir fóru ásamt nokkrum foringjum á baðströnd Skógarmanna sem heitir Oddakot. Þar er hægt að leika sér í dökkbrúnum sandinum, vaða langt út í vatnið og busla og leika sér. Veðrið var einmitt tilvalið fyrir slíka ferð. Í kvöldmat var súpa og heitt brauð. Eftir kvöldmat var ýmis dagskrá. Kúluvarp, bátar, borðtennismót auk þess sem Svínadalsdeildin í knattspyrnu hófst. Það er mikill áhugi fyrir fótbolta í flokknum. Svo var kvöldkaffi hálfníu, mjólk og mjólkurkex. Svo var skundað í hátíðarsal Gamla skálans þar sem fyrsta kvöldvakan fór fram. Gekk hún vel. Drengirnir eru duglegir að syngja. Við kveiktum upp í arninum að venju, heyrðum framhaldssögu flutta, sáum skemmtiatriði og hlustuðum á hugleiðingu um sr. Friðrik Friðriksson stofnanda KFUM og KFUK á Íslandi. Kvöldvökunni lauk um kl. hálfellefu og þá var farið í háttinn en einnig var í boði að ljúka deginum á stuttri bænastund í Kapellunni okkar íðilfögru. 18 drengir nýttur sér það. Svæfing gekk vel og drengirnir sváfu rótt í kyrri og fallegri sumarnóttinni í Svínadal eftir langan og viðburðarríkan dag.
Í dag, þriðjudag, var mjög gott veður. Hægur vindur og hlýtt, hiti 15-19°C. Skýjað og þurrt fram til kl. 14:30. Restina af deginum skein sólin bjart.

Kær kveðja,
Salvar Geir forstöðumaður.

P.s. Myndir frá deginum í dag má sjá hér:
http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=115356