Vatnaskógi, miðvikudaginn 21. júlí 2010.

Fyrsta nóttin gekk vel og strákarnir sváfu vel. Við vöktum þá kl. hálfníu og svo var morgunmatur kl. níu. Í morgunmat var hægt að fá sér hafrahringi, kornflögur, mjólk, súrmjólk og einnig heitan hafragraut. Svo var fánahylling við stóru fánastöngina okkar (12 m) en það er gömul hefð frá upphafi sumarbúðanna að hylla íslenska fánann og minnast fósturjarðar vorrar. Svo var morgunstund þar sem var sungið og fræðsla fór fram. Eftir hana fór hvert borð með sínum borðforingja á stuttan biblíulestur þar sem drengirnir fletta upp á vel völdum ritningarstöðum í Nýja testamentinu. Svo var frjáls tími þar sem ýmislegt var í boði. Hádegismatur var kl. 12 og í boði var dýrindis lasagne og meðlæti sem stúlkurnar höfðu eldað af kærleika. Vegna veðurblíðu var ákveðið að fara með allan flokkinn í gönguferð. Gengið var yfir á sem rennur úr vatninu okkar og yfir að gili hinum megin í dalnum, Glammastaðagili. Þar er gengið að litlum hyl þar sem drengirnir geta hoppað í hann og leikið sér að vild við ánna þar. Kaffi var drukkið í laut við ánna áður en gengið var tilbaka. Þá er gengin önnur leið og gengið yfir ósinn í vatninu okkar þar sem rennur í það. Þar er mikill framburður af sandi og því þægilegt að ganga þar yfir og enda drengirnir því í sandströndinni okkar við Oddakot. Í kvöldmat var vanilluskyr og smurt brauð. Eftir hann var ýmis dagskrá í boði eins og smíðar, bátar, borðtennismót, fótboltaspilsmót o.fl. Kvöldkaffi var kl. 20:30 og þá sungum við afmælissönginn fyrir hann Stefán á 2. borði sem varð einmitt 12 ára í dag. Svo var kvöldvaka með hefðbundnu sniði sem lauk þegar klukkan var gengin stundarfjórðung í ellefu. Svæfing gekk vel.
Í dag var aftur mjög gott veður í Vatnaskógi. Heiðskírt var allan daginn og hiti 14-18°C. Seinnipartinn kom smá vestanstinningsgola inn dalinn sem er ekki óalgengt á sólríkum dögum.


Kær kveðja,
Salvar Geir forstöðumaður.

P.s. Myndir frá deginum í dag má sjá hér:
http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=115697