Vatnaskógi, föstudaginn 23. júlí 2010.

Vakið var hálfníu að vanda. Strákarnir sofa vel á nóttunni. Þema morgunstundar var sköpun Guðs. Einn aðalviðburður dagsins var víðavangshlaupið. Er þetta hluti af frjálsíþróttakeppninni. Er hlaupið í kringum vatnið okkar, Eyrarvatn. Vegalengdin er 4-5 km og er þetta hlaup lítið ævintýri. Hlaupið er eftir stíg í gegnum skóginn út í Oddakot og þar yfir eystri ós vatnsins og svo er hlaupið meðfram ströndinni og á malarvegi hinum megin við vatnið þar til komið er að vestari ósnum og þar þarf að hlaupa yfir ána aftur en þá eru 500-600 m eftir í endamarkið og skrefin orðin þung. Góð þátttaka var í hlaupinu, 28 drengir, og veðrið mjög hagstætt til hlaups. Einnig var boðið upp á köngulóarfótbolta og svo var leyfilegt að vaða og busla í vatninu við bátaskýlið undir tilsjón bátaforingja sem stendur ávallt vaktina við vatnið þegar þar er eitthvað í gangi. Svínadalsdeildinni í knattspyrnu lauk í dag og vann 2. borð hana með fullt hús stiga. Dregið var í Puma-bikarkeppninni og fyrstu þrír leikirnir voru leiknir í henni og heitu pottarnir voru opnir. Einnig byrjaði bandýmót í íþróttahúsinu eftir kvöldmat og þá var líka hægt að skella sér út á íþróttavöll og taka þátt í kringlukasti. Svo var keppni í að húlla og einn drengurinn náði að húlla í heilar 40 mínútur! Geri aðrir betur.
Kvöldvakan var mjög skemmtilegt að vanda og mikið sungið. Gamall skógarmaður sem var í heimsókn ávarpaði drengina en hann var hérna í fjórar vikur sumarið 1955 sem var víst mikið rigningarsumar og rigndi eitthvað á hverjum degi. Sem betur fer hefur veðrið í þessum 8. flokki leikið við okkur J.
Í dag hefur verið mjög fínt veður í Vatnaskógi þó að sólin hafi ekki skinið á okkur. Alskýjað var allan daginn og hægur vindur af SA. Milli kl. 15 og 18 rigndi lítillega af og til annars var þurrt. Hiti var 14-17°C.

Kær kveðja,
Salvar Geir forstöðumaður.

P.s.
Myndir frá gærdeginum (fimmtudag) má sjá hér:
http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=116265

Myndir frá deginum í dag (föstudag) má sjá hér:
http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=116503