Vatnaskógi, laugardaginn 24. júlí 2010.
Drengirnir voru vaktir kl. hálf níu að venju og í morgunmat var heitt kakó og smurt brauð. Þemað á biblíulestrinum var bænin og var fjallað um hana og mikilvægi hennar.
Í hádegismat var plokkfiskur sem var mjög góður og eftir það fórum við með alla strákana út í Oddakot þar sem var háður hermannaleikur. Sá leikur er mjög vinsæll í Vatnaskógi og er haldinn í hverjum einasta flokki og hefur verið í áratugi en í gamla daga hét hann indíánaleikur. Öllum hópnum er skipt upp í tvö lið og svo berjast þeir með því að drepa hvorn annan. Engar byssur eru notaðar en þvottaklemma sem er fest á upphandlegginn er lífið þitt og ef andstæðingurinn nær henni þá ertu úr leik. Í kaffinu var svo bananabrauð, eplakaka og kanillengjur í boði. Einmitt um það leyti komu stúlkur sem dvelja í ævintýraflokki í sumarbúðum KFUM&KFUK í Ölveri í heimsókn. Þær eru 42 auk 7 foringja og þær eru einmitt á sama aldri og strákarnir í 8. flokki. Þær drukku sitt kaffi úti á grasflöt í blíðunni og svo heimsóttu þær okkur í matsalinn og sungu lag fyrir strákana. Hefðbundin dagskrá var eftir kaffi en stúlkunum var boðið að fara út á bátana okkar og busla í vatninu. Mjög margir af strákunum okkar mættu niður í fjöru við bátaskýlið og myndaðist mjög góð stemning og sannkallað vatnafjör þar sem krakkarnir syntu og busluðu í vatninu, syntu út á pramma sem er skammt frá bryggjunni, hlupu eftir vatnsþrautabraut sem liggur út á prammann eða fóru í vatnsslag. Sem sagt þrusufjör í björtu og mjög hlýju veðri. Stúlkurnar fóru svo heim rúmlega fimm og sumir drengirnir söknuðu þeirra strax og vinkuðu þeim frá hlaðinu okkar þegar rútan lagði af staö.
Í kvöldmat var ljúffeng sveppsúpa og smurt brauð. Eftir kvöldmat var svo hefðbundin dagskrá. Vegna veðurblíðu var ákveðið að halda kvöldvökuna í Skógarkirkju en ekki í salnum í Gamla skála. Þá var hitinn um 15°C, logn og skýjað. Skógarkirkja er fallegt skógarrjóður í skóginum rétt fyrir ofan kapelluna okkar. Þar er kross og eldstæði og falleg náttúra og tré í kring. Við sungum fullt af lögum og fengum fjörug atriði frá strákunum. Kvöldvöku lauk um kl. 22:30 og þá fórum strákarnir í háttinn nema þeir sem vildu koma við í kapellunni fyrst og enda daginn á stuttri bænastund.
Mjög hlýr dagur í dag og alveg þurrt. Hæg breytileg átt en vestangola þegar leið á daginn. Skýjað að mestu. Hiti var 16-20°C.
Kær kveðja,
Salvar Geir forstöðumaður.
P.s.
Myndir frá deginum í dag má sjá hér:
http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=117388