Góður dagur er að baki í Vatnaskógi. Veðrið skartaði sínu fegursta og tók dagskráin mið af því en nær allri innidagskrá var slegið á frest og þess í stað boðið uppá dagskrá við vatnið og í hoppuköstulum.
En eftir að drengirnir komu sér fyrir í svefnskálunum, var boðið uppá lasagne, ferskt salat með spínati, káli, papriku og tómötum ásamt hvítlauksbrauði og tóku drengirnir hraustlega til matar síns. Að hádegisverði loknum var boðið uppá báta og vatnafjör, margir reyndu við flekaþrautina, fór að busla eða út á kanó, hjólabát eða árabát. Þá var jafnframt boðið uppá hoppukastala. Klukkan þrjú biðu drengjanna, nýbakaðar bollur ásamt volgri skúffuköku og ískaldri mjólk sem svalaði þorstanum.
Vegna sólarinnar elti forstöðumaðurinn drengina á röndum með sólarvörn í hönd og tóku drengirnir því vel. En eftir kaffið stóð val þeirra milli, vatnsrennibrautar og heitra potta, kassabíla, tennisþrauta, þythokký, borðtennis, fótbolta, fótboltaspils, billjard eða lestur teiknimyndasagna og fundu því allir eitthvað við sitt hæfi.
Í kvöldmatinn var boðið uppá súrmjólk með ferskum ávöktum og súkkulaðispæni og smurðu brauði sem rann vel ofan í svanga drengi. Eftir kvöldmat fóru margir út á bát meðan aðrir tóku þátt í frjálsíþróttakeppni þar sem keppt var í 60m hlaupi og kúluvarpi. Aðrir fóru á smíðaverkstæðið eða í íþróttahúsið í leiktækin þar.
Eftir kvöldhressingu sem voru epla-, banana- og appelsínubitar hófst fyrsta kvöldvakan, hefðbundin að vanda, drengirnir sungu Vatnaskógarlög, sálma og hreyfisöngva í bland við leikrit, framhaldssögu og hugleiðingu útfrá Guðs orði. Þar var rætt um sr. Friðrik Friðriksson, bænheyrslu og upphaf Vatnaskógar, einnig var talað um helgunarhugtakið og að Vatnaskógur væri helgaður Guði, það er frátekin fyrir kristilegt og uppbyggjandi starf. Drengirnir voru líka hvattir til að helga líf sitt því fagra og góða og tileinka sér boðskap trúarinnar.

Margar ljósmyndir voru teknar en vegna vandamála með að að hlaða þær inn, birtast þær ekki fyrr en síðar á morgun, þriðjudag.

Ef einhverjar spurningar eru má endilega senda fyrirspurnir á netinu gudni.mar(hja)lindakirkja.is eða hringja í símatímanum milli 11 og 12.