Árlegur norrænn formanna- og framkvæmdastjórafundur KFUM og KFUK fór fram um síðustu helgi, dagana 28.-30. janúar. Á fundinn mættu formenn og framkvæmdastjórar KFUM og KFUK í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi auk fulltrúa frá KFUM og KFUK á Íslandi. Sérstakur gestur fundarins var Nyaradzayi Gumbonzvanda framkvæmdastjóri Heimssambands KFUK. Fundurinn hófst á föstudagskvöldinu með kvöldverði á heimili formanns KFUM og KFUK á Íslandi, Tómasar Torfasonar. Síðan var hafist handa við dagskrá fundarins. Fulltrúar hvers lands fyrir sig fluttu skýrslu um helstu þætti í starfinu á árinu 2010. Sérstaklega var skipst á reynslu varðandi starf félaganna á meðal innflytjenda.
Á laugardagsmorgninum var fundað í húsakynnum félagsins á Holtavegi 28 um málefni Heimssambands KFUK. Nyaradzayi Gumbonzvanda kynnti sjálfa sig, sagði frá þeim skipulagsbreytingum sem verið er að gera á skrifstofu Heimssambands KFUK í Genf vegna hagræðingar í rekstri. Einnig sagði hún frá undirbúningi við Heimsþing KFUK sem fram fer í sumar í Zürich í Sviss. Nyaradzayi er fædd og uppalin í Zimbabwe, yngst úr hópi 11 systkina og sú eina af systkinunum sem átti kost á framhaldsmenntun. Hún er menntaður lögfræðingur með framhaldsmenntun í mannréttindum frá háskólanum í Uppsala í Svíþjóð. Hún hefur verið framkvæmdastjóri Heimssambands KFUK frá árinu 2007 en starfaði áður fyrir Sameinuðu þjóðirnar.
Eftir hádegi á laugardeginum flutti Þorkell Sigurlaugsson mjög áhugaverðan fyrirlestur um ábyrgð stjórna og starfsfólks félagasamtaka, en hann er höfundur bókarinnar Ný framtíðarsýn og starfar við Háskólann í Reykjavík. Annar liður á dagskrá laugardagsins var umræða um norræn málefni. Hreiðar Örn Z. Stefánsson kom inn á fundinn og sagði frá fundi norrænu barnastarfsnefndarinnar sem fram fór í október og undirbúningi norræns unglingamóts sem verður haldið í Danmörku í sumar. Að loknu stífu fundahaldi á Holtaveginum var lagt af stað upp í Vatnaskóg. Var gengið um staðinn, staldrað við í Birkiskála þar sem fram fór kynning á sumarstarfi KFUM og KFUK og sérstaklega þeirri dagskrá sem boðið er upp á í Vatnaskógi allt árið um kring. Í Skóginum voru fyrir um 40 ungmenni í leiðtogaþjálfun hjá KFUM og KFUK. Var ánægjulegt að fá að borða með þeim hátíðarkvöldverð í matsalnum í Vatnaskógi og eiga með þeim stund á kvöldvöku síðar um kvöldið. Þar myndaðist samfélag framtíðarleiðtoga KFUM og KFUK og forystu félagsins á norræna- og veraldar vísu, þar sem hvorki litarháttur, kyn, aldur eða menntun skiptu máli.
Norrænum formanna- og framkvæmdastjórafundi á Íslandi lauk á sunnudagsmorgninum og héldu gestir ánægðir heim eftir eftirminnilega dvöl á Íslandi.
Gyða Karlsdóttir, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK á Íslandi.