Dagana 28. – 29.janúar var leiðtogahelgi KFUM og KFUK haldin í Vatnaskógi. Helgin er liður í leiðtogafræðslu félagsins sem 36 ungmenni á aldrinum 15 – 18 ára tóku þátt í. Ungmennin starfa sem leiðtogar og aðstoðarleiðtogar í æskulýðsstarfi félagsins. Þátttakendur gerðu sér ýmislegt til gagns og gamans, bæði innan – og utandyra ásamt því að sækja fræðslustundir og hlusta á hugleiðingar. Fjallað var um leiðtogahlutverkið, og þema í hugleiðingum helgarinnar var út frá söguþræði bókmennta C. S. Lewis, Sögum frá Narníu. Farið var í skemmtilega leiki og ýmis verkefni voru leyst.
Einnig var boðið upp á trú – og biblíufræðslu. Á laugardeginum var fræðslustund í umsjá Ragnars Schram, sem var öllun opin, og umfjöllunarefnið var „Að þora að kannast við Krist“. Þegar kvölda tók var borinn fram hátíðarkvöldverður, sem þátttakendur gerðu góð skil, og loks var boðið upp á skemmtilega kvöldvöku með skemmtiatriðum, hugleiðingu og fleiru. Gestir af norrænum formanna-og framkvæmdastjórafundi KFUM og KFUK slógust í hópinn í Vatnaskógi á laugardeginum, tóku þátt í kvöldverðinum og kvöldvökunni, og kynntust framtíðarleiðtogum KFUM og KFUK á Íslandi.