Í Biblíulestrinum hjá drengjunum í morgun veltum við upp tveimur ólíkum myndum af fjárhirðum. Annars vegar smalanum sem gengur á eftir kindum og rekur þær á fjall/af fjalli og hins vegar hirðisímynd Nýja Testamentisins. Hirðinn sem gengur á undan inn í óvissuna, kallar kindurnar og býður þeim að fylgja sér á grænar grundir eins og lýst er í Davíðssálmi 23.
Eftir Biblíulesturinn og samtal við drengina á 4. borði fór ég að velta fyrir mér tveimur fréttum sem ég sá í New York Times á síðasta ári. Önnur fréttin fjallaði um rannsóknir á bestu störfum í Bandaríkjunum og hin um ferðaskrifstofufyrirtæki í Ástralíu sem bauð laust til umsóknar besta starf í heimi. Ég nefnilega held að báðar fréttirnar hafi verið rangar, enda var forstöðumannsstarfið í Vatnaskógi nefnt í hvorugri greininni.
Í gær var boðið upp á Quidditch mót, hvers kyns frjálsar íþróttir, gönguferð á sólarströnd, báta, frábæra kvöldvöku þar sem foringjar fóru á kostum í mjög eftirminnilegu leikriti, tveggjakvölda framhaldsagan um Pál og bikarinn var sýnd og það var sungið mikið.
En það er ekki dagskráin ein sem gerir starfið mitt það besta í heimi. Drengirnir þessa viku hafa verið kurteisir og viðræðugóðir, tekið virkan þátt í dagskrá, verið duglegir að spyrja spurninga og velta upp hlutunum. Þá hafa þeir sem hafa komið hér áður verið duglegir að minna okkur starfsfólkið á, þegar þeim finnst við ekki fylgja hefðum staðarins (sem gerist stundum í ævintýraflokki).
Starfsfólkið hérna með mér er líka einstakt. Þeir foreldrar sem hafa hringt hingað hafa sjálfsagt tekið eftir því að ég er orðinn því sem næst raddlaus, en það hefur ekki komið að sök. Hér gengur hver í annars verk þegar þörf krefur og áhugi og gleði skín úr hverju andliti hjá starfsmannahópnum. Eins og ævintýraflokki sæmir hafa starfsmenn verið duglegir að leggja drög af hvers kyns nýjungum og tilraunaverkefnum (sem drengirnir svara reyndar stundum með því að vísa til hefðar).
Með öðrum orðum. Hér eru ríflega 90 manneskjur, 11 ára og eldri, sem allar leitast við að hafa góðar stundir og hjálpa þeim sem í kringum þá eru að eiga góða daga líka. Það er í raun mikill heiður fyrir mig að fá að taka þátt í verkefninu og sjá það ganga jafnvel og raun ber vitni.
Hægt er að ná í mig með því að senda póst á
elli@vatnaskogur.net.
Myndir frá þriðja degi í Vatnaskógi eru hér:
http://www.flickr.com/photos/vatnaskogur/sets/72157627028064054/