Síðasta sólarhringinn hefur starfið í Vatnaskógi einkennst af staðalkynímyndum um stráka þannig að sjálfsagt gæti sumum vinum mínum og starfsfélögum utan skógarins þótt nóg um. Ég hins vegar trúi því sjálfur að það sé gott fyrir stráka að fá tækifæri til að vera strákar og tuskast á í góðum leik undir vökulu auga góðra leiðtoga.
Hér var boðið upp á nýjan leik í gærdag sem kallaður er orusta (eða batl) og verður líklega best lýst sem "laser-tag" með pappírsboltum. Þá er í fullum gangi kraftakeppnin "Vatnaskógarvíkingurinn" og í morgun voru drengirnir vaktir rúmlega klst fyrr en venjulega með dúndrandi rokktónlist til að fara í "hermannaleikinn" sívinsæla fyrir morgunverð. En drengirnir sem gista í Gamla skála undir stjórn vaskra foringja gerðu árás á drengina sem gista í Birkiskála sem vörðu aðstöðu sína af krafti. Að öllu jöfnu er leikurinn hafður út í skógi, en að þessu sinni fóru átökin fram á hlaðinu hér í Lindarrjóðri og það var einstaklega gaman að sjá tilþrif drengjanna þar sem þeir reyndu að nappa klemmum af öxl hvors annars.
Vissulega hefur ýmislegt annað verið á dagskránni. Frjálsíþróttamótið hefur verið í fullum gangi og knattspyrna, hluti hópsins gekk á Kambinn (fjallið hér hinum megin við Eyrarvatn) og snertu þar skýin ásamt því að lenda í einu rigningu flokksins. Boðið var upp á leiklistarverkefni í gær, á kvöldvökunum hefur verið sungið af krafti og bátarnir hafa verið mikið notaðir.
Viðbót: Ég gleymdi að nefna þegar ég vistaði þessa færslu áðan, víðavangshlaupið, 4,2 km í kringum vatnið, yfir ósana beggja vegna og eftir mjög misgóðu undirlagi. En fjölmargir drengir hlupu hringinn í gærdag.
Hægt er að ná í mig með því að senda póst á elli@vatnaskogur.net.
Myndir frá fjórða og fimmta degi í Vatnaskógi eru hér: http://www.flickr.com/photos/vatnaskogur/sets/72157626910724183/with/5865733503/