Dagurinn í gær var viðburðaríkur eins og aðrir dagar hér í skóginum. Eftir hádegi bauðst drengjunum að hlaupa víðavangshlaup, boðið var upp á báta, dagskrá í íþróttahúsinu og margs konar leiki.
Síðar í gær opnuðum við heitu pottana á bakvið íþróttahúsið og buðum upp á smíðaverkstæði í viðbót við fasta liði á staðnum. Það er því nóg um að vera á staðnum.
Í gærkvöldi var kvöldvaka þar sem einn foringinn sagði frá ferð sem hann fór í á síðasta ári ásamt nokkrum starfsmönnum í Vatnaskógi og fleira ungu fólki að kynna sér starf
Kristniboðssambandsins í Eþíópíu. Drengirnir spurðu margra spurninga og sýndu mikinn áhuga á kynningunni. En Kristniboðið starfar með Mekane Jesus kirkjunni í Eþíópíu að boðun kristinnar trúar og hjálparstarfi í sumum af afskekktustu héruðum þessa stóra lands í miðaustur Afríku.
Eftir langan og spennandi dag ákváðum við að vekja drengina hálftíma síðar en vanalega og þegar þetta er skrifað eru drengirnir að byrja í fjölbreyttri dagskrá að loknum morgunverði, fánahyllingu, morgunsamveru í Gamla skála og stuttum Biblíulestri með sínum hópstjóra.

Hægt er að sjá nokkrar nýjar myndir úr flokknum eru á slóðinni
http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=147868.
Eins og áður hefur komið fram tístum við nokkrum sinnum á dag úr flokknum á
twitter.com/vatnaskogur. Þá eru sumarbúðirnar í Vatnaskógi með síðu á Facebook á slóðinni
www.facebook.com/vatnaskogur. Hér er um tilraunastarfsemi að ræða og við vonum að þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með starfinu taki viljann fyrir verkið.
Hægt er að ná í forstöðumann flokksins með tölvupósti á netfanginu elli(hjá)vatnaskogur.net.