Í gær var spilaður hinn sívinsæli foringjaleikur í knattspyrnu. Úrslit leiksins urðu þau sömu og áður í sumar. Í öðrum fréttum er það helst að veðrið hefur leikið við okkur hér í Vatnaskógi og rigningin sem við áttum von á í gær lét ekki sjá sig. Það þýðir að innidagskráin sem við vorum með í bakhöndinni hefur verið lagt, enda ekki hægt að hanga inni á dögum eins og í gær og í dag.

Á Biblíulestrinum í morgun ræddum við um litlu Biblíuna (Jóh 3.16) og hvernig sá mistæki maður Marteinn Lúther uppgötvaði að kristindómurinn snýst ekki um að gera rétt svo Guð elski okkur, heldur að geta lifað í fullvissu þess að við erum elskuð af Guði og í þakklæti vegna elsku Guðs leitumst við (vonandi) eftir að gera rétt.

Þá var og forkeppni í Biblíuspurningakeppninni, en á veislukvöldvöku í kvöld verða síðan úrslit þeirrar keppni.

Eins og áður hefur komið fram tístum við úr flokknum á twitter.com/vatnaskogur. Þá eru sumarbúðirnar í Vatnaskógi með síðu á Facebook á slóðinni www.facebook.com/vatnaskogur.

Hér er um tilraunastarfsemi að ræða og við vonum að þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með starfinu taki viljann fyrir verkið. 

Hægt er að ná í forstöðumann flokksins með tölvupósti á netfanginu elli@vatnaskogur.net.