Dagurinn í gær endaði á brjálaðri Wipe Out keppni á íþróttavellinum, þar sem þátttakendur rennblotnuðu þegar þeir reyndu að komast yfir margvíslegar þrautir sem ég kann ekki að útskýra í svona færslu. Reyndar má e.t.v. halda því fram að dagurinn í dag hafi byrjað á brjálaðri Wipe Out keppni á íþróttavellinum, enda stóð dagskráin eitthvað fram yfir miðnætti.
Ég held að það sé óhætt að segja að ég hef sjaldan eða aldrei verið í flokki í Vatnaskógi sem hefur byrjað með viðlíka dagskrá og þessi flokkur sem nú er í gangi, en ég hef verið hér í líklegast nærri hundrað flokkum á síðustu 20 árum. Við höfum nýtt okkur vel að leiktækin frá Sæludögum, vatnatrampólín og þrautabrautir, hoppikastalar og vatnatuðrur hafa ekki verið sett í geymslu og standa okkur því til boða enn um sinn.
Það er eiginlega með ólíkindum að sitja á starfsmannafundum og reyna að draga úr hugmyndum starfsmanna um hvers kyns ævintýralega dagskrá, einfaldlega vegna þess að flokkurinn stendur einungis í 6 daga og ekki möguleiki á að koma öllu að.
Annars gáfum við okkur tíma til að ræða um Guð sem skapara alls í morgun og í gær sagði Hilmar foringi frá ferðalagi sínu og fleiri starfsmanna um starfsvæði
íslenskra kristniboða í Eþíópíu á síðasta ári.
Hvað tæknihliðina varðar, þá erum við enn í vanda með að birta myndir úr flokknum, en við erum að vinna í málinu. Hægt er að ná í forstöðumann með því að senda póst á
elli@vatnaskogur.net. Þá birtum við öðru hvoru smámola á
www.twitter.com/vatnaskogur og
www.facebook.com/vatnaskogur.