Sælt veri fólkið. Vonandi hafa allir séð myndirnar sem birtust seint í gærkvöldi. Von er á fleiri myndum í kvöld. Veðrið leikur ennþá við okkur. Drengirnir sváfu vel í nótt enda mun þreyttari heldur en fyrsta kvöldið. Það er mikill kraftur í hópnum en einnig gleði. Margir eru að stíga stór þroskaskref og vinna mikla sigra á sjálfum sér með því að dveljast í fyrsta sinn hjá öðrum en fjölskyldu. Við gerum það sem við getum til að þeir finni til öryggis. Stundum er dvöl í sumarbúðum erfiðari fyrir foreldra, einkum mæður :), heldur en drengina sjálfa. Í dag var m.a. farið í Oddakot sem er baðströnd Skógarmanna, austast í vatninu. Þar er svartur sandur og vatni grunnt langt út svo auðvelt er að hlaupa í flæðamálinu eða grafa sig í sandinn. Sumir gengu svokallaðan efri skógarstíg sem er falleg leið í gegnum skóginn. Hún endar hjá klettum skammt frá Oddakoti. Eins var stór hópur sem tók þátt í fjársjóðsleit. Það var einskonar ratleikur með nokkrum liðum. Mikil spenna var í þessum leik. Smíðastofan heillar marga, hún er einföld og miðast einkum við að vinna með efni sem fellur til úr skóginum. Frjálsar íþróttir og fótbolti trekkja alltaf að. Kassabílarallý var í gær og tóku margir þátt í því. Úrslitakeppnin var háð í gærkvöldi og fylgdust allir með og hvöttu keppendur til dáða. „Mótorarnir“ tóku á öllu sínu og gáfu ekkert eftir enda búnir á því þegar keppni lauk. Framundan er kvöldvaka með miklum söng. Í dag er stór dagur fyrir þá drengi sem eru að koma í fyrsta sinn í flokk í Vatnaskógi. Þeir hafa nú gist í tvær nætur í flokki á vegum Skógarmanna KFUM og þá eru þeir orðnir Skógarmenn. Þar með bætast þeir í hóp u.þ.b. 20.000 (tuttuguþúsund) núlifandi Skógarmanna. Margir drengjanna eiga feður, afa og jafnvel langafa sem dvalið hafa hér. Sumir feður, sem ekki höfðu kost á að dvelja hér sem drengir, syrgja þann kafla æsku sinnar 🙂 …. en þið getið huggað ykkur við það að í haust er boðið uppá feðgahelgi og eins karlaflokk fyrir 18 ára og eldri. Þá má minna á fjölskylduhelgi um miðjan júlí sem er nýbreyttni. Gott í bili.
Kær kveðja,
Sigurður Grétar